Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum, hefur beðist afsökunar á ummælum sem hann lét falla um konur og náðust á upptöku. Upptakan er frá árinu 2005 en var birt á vef Washington Post í gær.
Á upptökunni heyrist Trump monta sig af því að kyssa, káfa á og reyna að sænga hjá konum, og sagði meðal annars að þegar menn væru frægir eins og hann kæmust þeir upp með það. Hann talar um að hann laðist sjálfkrafa að fallegum konum og byrji bara að kyssa þær. „Og þegar þú ert stjarna, þá leyfa þær þér það. Þú getur gert hvað sem er...gripið í píkuna á þeim. Þú getur gert hvað sem er.“
Hann hefur verið gagnrýndur harðlega, bæði meðal Demókrata og Repúblikana.
„Ég sagði þetta, ég hafði rangt fyrir mér og ég biðst afsökunar,“ sagði Trump í óvenjulegu myndbandsávarpi sem hann birti í nótt að íslenskum tíma, og má sjá hér að neðan. Hann sagði þó að málið væri að dreifa athyglinni frá þeim mikilvægu málum sem við væri að etja. Það væri líka mikill munur á milli orða og gjörða og Bill Clinton hafi misnotað konur. Þetta hygðist hann ræða frekar á næstu dögum.