Frá miðju síðasta ári til loka september á þessu ári hefur Seðlabanki Íslands veitt lífeyrissjóðum og öðrum vörsluaðilum séreignarlífeyrissparnaðar undanþágur frá lögum um gjaldeyrismál til fjárfestingar upp á 80 milljarða, að því er fram kemur í frétt á vef Seðlabanka Íslands. Af þeim 80 milljörðum voru 65,5 milljarðar erlendis.
Nýttir voru 34,7 milljarðar til erlendra fjárfestinga á fyrrnefndu tímabili, sem nemur um 87 prósent af veittri heimild. Töluvert vantaði því upp á að heimildin væri fullnýtt.
„Aðilar nýttu sér 34,7 ma.kr fjárhæðarinnar til erlendra fjárfestinga á þessu tímabili eða sem nemur 87% af veittri heimild. Af undanþágum sama efnis samtals að fjárhæð 40 ma.kr. sem veittar voru fyrrgreindum aðilum vegna tímabilsins 1. júlí til 30. september sl. nýttu sjóðirnir 30,8 ma.kr. til erlendra fjárfestinga á tímabilinu eða sem nemur 77% af veittri heimild,“ segir í frétt á vef Seðlabanka Íslands.
Mikið innstreymi gjaldeyris til landsins að undanförnu hefur ýtt undir nokkuð hraða styrkingu krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum. Evran kostar nú 127 krónur, en fyrir um árið kostaði hún 150 krónur. Pundið er komið niður í rúmlega 140 krónur, en fyrir um ári kostaði það 206 krónur. Sömu sögu er að segja af Bandaríkjadal, en hann kostar nú 113 krónur en kostaði 136 krónur fyrir ári síðan.
Gísli Hauksson, forstjóri GAMMA, hélt því fram í viðtali við Morgunblaðið á laugardag, sem birt er á vef GAMMA, að gengi krónunnar sé rangt skráð, vegna mikilla inngripa Seðlabanka Íslands á gjaldeyrismarkaði. Ekki sé óeðlilegt að gengi krónunnar styrkist, þar sem nú séu inngripin ekki eins mikil.