Stjórnarandstöðuflokkarnir á Alþingi lýsa allir verulegum vonbrigðum með þá leið sem valin hefur verið til að hækka greiðslur almannatrygginga, og segja að sú leið tryggi ekki að greiðslur almannatrygginga fylgi þróun lágmarkslauna og verði 300 þúsund krónur.
Samfylkingin, Vinstri-græn, Björt framtíð og Píratar héldu sameiginlegan blaðamannafund í dag þar sem kynntar voru tillögur flokkanna í málaflokknum.
Flokkarnir segja að aðeins hluti aldraðra og öryrkja muni fá þær hækkanir sem boðaðar hafa verið með tillögum ríkisstjórnarinnar að breytingum á almannatryggingafrumvarpinu sem nú er í vinnslu á Alþingi. Eldri borgarar og öryrkjar í sambúð séu skildir eftir og tekjuskerðingar aukist hjá ákveðnum hópum. „Ríkisstjórnin ætlar sér að ná fram sparnaði með því að hækka þá sem búa með öðrum hlutfallslega minna og ná síðan 280.000 kr. markinu fyrir þá sem búa einir með því að auka skerðingar. Þannig er í raun verið að innleiða sambúðarskatt á lífeyrisþega og auka skerðingarhlutföllin hjá þeim sem búa einir. Þessi munur mun síðan aukast enn meira árið 2018. Þetta er ósanngjörn leið sem grefur undan trausti og samstöðu um gott almannatryggingakerfi.“
„Tillögur ríkisstjórnarinnar eru að hækka ellilífeyri um 7,1% fyrir eldri borgara í sambúð. Sú hækkun er lægri en hækkanir á vinnumarkaði. Heimilisuppbót er hækkuð en hún fer til eldri borgara sem búa einir og þannig ná kjör þeirra 280.000 kr. sem eru lágmarkslaun árið 2017. Þessar breytingar þýða að eldri borgari í sambúð fær 227.883 krónur á mánuði eftir hækkunina en sá sem býr einn fær til viðbótar 52.117 kr. í heimilisuppbót. Í tillögum ríkisstjórnarinnar er skerðingin á heimilisuppbót hækkuð í 56,9%,“ segir í tillögum minnihlutans, sem segist leggja til réttlátari leið og hækka ellilífeyri um 13,4%. „Þá fær eldri borgari sem býr með öðrum 241.300 kr. á mánuði eða um 13.400 kr. meira á mánuði miðað við tillögur ríkisstjórnarinnar. Eldri borgari sem býr einn fær 280.000 kr. eins og í tillögum ríkisstjórnarinnar en hlutur heimilisuppbótarinnar í þeirri greiðslu er minni og skerðingu á henni er haldið óbreyttri eða 52,5%.“
Tillögur ríkisstjórnarinnar gagnvart öryrkjum eru eins, hækkun upp á 7,1% fyrir öryrkja sem eru í sambúð en hækkun framfærsluuppbótar hjá þeim sem búa einir. Það þýði að öryrki sem býr með öðrum fær 227.883 krónur á mánuði en sá sem býr einn fær 280 þúsund krónur. „Skerðingar hans vegna annarra tekna aukast því sérstaka framfærsluuppbótin fær hlutfallslega meira vægi í heildargreiðslum,“ segir minnihlutinn. Framfærsluuppbótin skerðist líka króna á móti krónu og vægi slíkra skerðinga því aukið.
Minnihlutinn vill hækka lífeyrisgreiðslur öryrkja um 13,4% eins og hjá öldruðum.