Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hefur miklar áhyggjur af því hvernig ríkisstjórn verður mynduð eftir kosningar, miðað við stöðuna eins og hún birtist í skoðanakönnunum, þar sem ómögulegt gæti orðið að mynda tveggja flokka stjórn.
Þetta kom fram í máli Bjarna á fundi Félags kvenna í atvinnulífinu í morgun. Þar voru fulltrúar flokkanna meðal annars spurðir að því með hvaða flokkum þeir gætu hugsað sér að mynda ríkisstjórn að loknum kosningum.
„Ég held að við stöndum frammi fyrir miklu alvarlegri stöðu heldur en almennt er viðurkennt í umræðunni. Fólki finnst voða gaman að þessari stöðu. Þetta er svona samkvæmisleikur að velta fyrir sér hvernig verður þetta eiginlega?“ sagði Bjarni.
„Ég hef bara mjög miklar áhyggjur af þessu, það er nú bara staðan. Það er líka reynslan á þessu landi að þriggja flokka stjórnir hafa almennt ekki lifað lengi, en nú þurfum við að fara í fjóra eða fimm. Það er það sem ég hef miklar áhyggjur af. Þetta er ekki samkvæmisleikur, þetta snýst um stöðugleika.“
Bjarni sagði í þættinum Forystusætið á RÚV í gærkvöldi að núverandi ríkisstjórn myndi ekki halda velli, þar sem að fylgi þeirra verði að öllum líkindum ekki nægt til að mynda tveggja flokka ríkisstjórn. Hann sagði einnig að aðstæður í stjórnmálum væru mjög óvenjulegar. Fyrir honum væri alltaf fyrsti kostur að mynda tveggja flokka stjórn, mörg erfið mál komi upp á hverju kjörtímabili og eftir því sem flokkarnir í stjórn verði fleiri verði sérsjónarmiðin magnaðri. Það geti leitt til stjórnarfalls.
Hægt er að horfa á upptöku af fundinum hér að neðan.