Alþingi hefur verið slitið og nýtt þing kemur saman á nýju kjörtímabili að loknum kosningum. Á síðasta degi þingsins voru samþykkt lög um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum, fasteignalán til neytenda, stofnun millidómstigs, Grænlandssjóð og breytingar á útlendingalögum.
Síðasta þingmálið sem var samþykkt á þessu þingi var þingsályktunartillaga um það hvernig skuli fagna aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands. Tillagan var samþykkt með 56 samhljóða atkvæðum.
Meðal mála sem ekki voru afgreidd á þinginu voru LÍN-frumvarpið, breytingar á lífeyrismálum og breytingar á lögum um vexti og verðtryggingu.
Þingið, sem nú er að ljúka, er óvenjulegt að mörgu leyti, sagði Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis. Þetta var lengsta þingið í þingfundadögum talið, 147 dagar fóru í þinghald. Aldrei hafa ráðherrar svarað eins mörgum óundirbúnum fyrirspurnum og á þessu þingi. Bara einu sinni áður hafa verið fleiri sérstakar umræður á einu þingi. 107 frumvörp urðu að lögum á þessu þingi og aldrei áður hafa eins margar þingsályktunartillögur verið samþykktar og á þessu ári, 72 talsins. Hann sagði því ljóst að þingið hefði verið athafnasamt.
Einar beindi orðum sínum til ungs fólks og bað það fólk sem áhuga hefði á því, að sækjast eftir störfum á Alþingi. Hann sagði sannarlega margt gagnrýnivert við störf þingsins, og að það hafi verið honum vonbrigði að ekki hafi verið hægt að breyta þingsköpum.
Einar er einn þeirra fjölmörgu þingmanna sem hætta nú störfum á Alþingi. Fjöldi þingmanna hefur í dag og undanfarna daga nýtt tækifærið til að kveðja Alþingi úr ræðustól. Einar minntist á alla þingmennina sem ætla nú að hætta og þakkaði fyrir samstarfið, auk þess sem hann minntist tveggja þingmanna sem féllu frá á kjörtímabilinu, þeirra Péturs Blöndal og Guðbjarts Hannessonar. Hann þakkaði öllum þingmönnum og starfsfólki Alþingis fyrir samstarf, auk þess sem hann þakkaði fjölmiðlafólki.
Að lokinni ræðu Einars hélt Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri-grænna, ræðu til að kveðja Einar sem þingforseta. Við hlið hennar stóðu þingflokksformenn allra þingflokka. „Alþingi er hjartað í lýðræðinu á Íslandi,“ sagði hún. „Við þurfum að standa með þingræðinu, sem er gott stjórnarform, það er oft seinlegt og vesen finnst okkur, en það er ekkert betra til.“
Hún sagði einnig að Einar hefði með sinni framgöngu sem forseti stuðlað að því að auka virðingu Alþingis. Hún þakkaði honum fyrir störf sín og samstarfið, og afhenti honum blómvönd frá þingmönnum. Að lokum stóðu allir þingmenn úr sætum sínum til að taka undir orð hennar.