Íslenska þjóðfylkingin náði ekki að skila inn meðmælalistum í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur, samkvæmt heimildum Kjarnans. Frestur til að skila inn listunum rann út á hádegi. Flokkurinn verður því ekki í framboði í Reykjavík.
Gunnlaugur Ingvarsson og Gústaf Níelsson, sem leiða áttu lista Íslensku þjóðfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur, ákváðu að draga framboð sitt til baka. Þetta tilkynntu þeir á blaðamannafundi sem þeir héldu á kaffihúsi í Hörpu. Ástæðuna segja þeir vera að formaður flokksins, Helgi Helgason, sé fullkomlega áhugalaus um framgang, hugsjón og stefnu Íslensku Þjóðfylkingarinnar. Þeir treysti sér því ekki til að starfa með honum. Í yfirlýsing segja þeir: „Stjórnmálaflokkur verður að njóta traustrar forustu, eigi árangur að nást. Íslenska þjóðfylkingin nýtur þess ekki. Ítrekað hefur formanni flokksins verið bent á það, að hann ræður ekki við verkefnið. Hann man ekki að kvöldi, hvað hann sagði að morgni, hann veit ekki hvort hann er að koma eða fara og er óöruggur í allri framgöngu, undirförull og óheill.“
Íslenska þjóðfylkingin mælist með 2,1 prósent fylgi samkvæmt nýjustu Kosningaspá Kjarnans.