Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, oddviti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, gagnrýnir fréttaflutning RÚV af meintu tölvuinnbroti í tölvu hans á meðan hann var forsætisráðherra. Hann segist hafa hlegið upphátt þegar hann sá fyrirsögn RÚV um málið, en fyrirsögnin var „Vildi ekki láta skipta um disk sýktu tölvunnar.“
Þetta segir Sigmundur í færslu á Facebook-síðu sinni að sé merki um að RÚV sé að gefa í skyn að honum hafi „bara þótt ljómandi gott að vera með sýkta tölvu eða ekki talið trúverðugt að brotist hafi verið inn í tölvuna (e.t.v. talið að slíkt tal væri nú bara eins og upp úr vísindaskáldsögu). Hvað kemur næst? Ég bíð spenntur. Raunin var sú að ég var ekki mótfallinn því að fá víruslausa tölvu. Ég þurfti hins vegar að nota gögn úr tölvunni svo það varð að bíða. Tölvan var því aftengd internetinu og loks tekið af henni rafmagn til öryggis.“
Frétt RÚV frá því í morgun byggir á gögnum frá Ríkislögreglustjóra um málið, meðal annars minnisblaði frá rekstrarfélagi Stjórnarráðsins. Í því minnisblaði kemur fram að starfsmenn hafi bent Sigmundi Davíð á að rétt væri að skipta um disk tölvunnar og setja stýrikerfi upp að nýju. „Ráðherra vildi ekki að það yrði gert,“ segir orðrétt í minnisblaðinu samkvæmt frétt RÚV.
Það vakti mikla athygli þegar Sigmundur Davíð, þá formaður Framsóknarflokksins, sagði í ræðu á miðstjórnarfundi flokksins þann 10. september síðastliðinn að brotist hafi verið inn í tölvuna hans. Hann hafi látið yfirfara tölvuna hjá rekstrarfélagi stjórnarráðsins og þar hafi fundist ummerki um innbrot. Rekstrarfélagið sagði hins vegar í svari við fyrirspurn Kjarnans þann 12. september að engin staðfest ummerki hafi fundist um innbrot. Óskað hafi verið eftir því við rekstrarfélagið þann 1. apríl að tölvan yrði skoðuð. Við ítarlega leit hafi ekki fundist staðfest ummerki um innbrot.
„Ekki fannst staðfesting á því að umrædd vél hafi verið sýkt og né aðrar vélar á þeim tíma á okkar staðarneti af þeirri veiru sem hér um ræðir. Ólíklegt þykir að sýking hafi átt sér stað þar sem Sigmundur Davíð sem og aðrir notendur hafa takmörkuð réttindi á sínar vélar,“ segir einnig í minnisblaði rekstrarfélagsins um málið, sem RÚV greinir frá í dag.
Sigmundur Davíð birti bréf á Facebook-síðu sinni í gær frá ríkislögreglustjóra. Þar segir Sigmundur að „Fram kemur að tölvupóstur sem sendur var á mig og látinn líta út fyrir að hann hefði komið frá öðrum en þeim sem sendi hann hefði líklega innihaldið þekkta tölvuveiru að nafni „Poison Ivy backdoor“. Um þá veiru segir í bréfi frá RFS: „Einkenni hennar eru þær að hún opnar bakdyr inn á tölvu viðkomandi fyrir aðgengi árásaraðila að tölvunni“. Þótt veiran hafi ekki fundist í tölvunni er tekið fram að „Algengt er með slíka veirur að árásaraðilinn hreinsar til eftir sjálfan sig að lokinni aðgerð“. Atvikið var skráð sem öryggisatvik hjá RFS.“