„Bjarni [Benediktsson] þú er góður maður og skýr og skemmtilegur og kannt að baka afmælisköku, en þú ert fyrst og fremst bisnissmaður á röngum stað. Því hvet ég þig Bjarni til þess að segja af þér ráðherraembætti og formennsku í Sjálfstæðisflokknum og snúa þér að því sem þér er eiginlegt.“ Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri DeCode, í nýrri grein sem hann birtir á Facebook í dag.
Þar segir Kári enn fremur að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi hafnað því að mæta honum í þætti á Stöð 2 til að ræða heilbrigðismál. Sjálfstæðisflokkurinn hafi oft tekið þá áhættu í gegnum tíðina sem felist í að hlúa að þeim sem minnst mega sín í íslensku samfélagi, en að mati Kára er Bjarni að koma í veg fyrir það nú og með því að skemma fyrir flokknum. „Dragðu lærdóm af örlögum Sigmundar Davíðs og segðu af þér áður en þér verður hent út á eyrunum.
Annar möguleiki væri að þú settist fyrir framan mig í sjónvarpssal í beinni útsendingu og sýndir mér og þjóðinni allri fram á að ég hafi rangt fyrir mér, ef þú bara þorir Bjarni Benediktsson. Og ef þér finnast orð mín ósanngjörn, ekki gleyma því að réttlætið sigrar alltaf að lokum eins og sést best á því að Bob Dylan var veittur Nóbelinn í bókmenntum um daginn.“
Segir lítið mark takandi á orðum Bjarna
Efni greinarinnar er sem fyrr staða heilbrigðiskerfisins á Íslandi, en Kári hefur verið ötul baráttumaður þess að það verði endurreist með því að hlutfall af landsframleiðslu sem varið verði til þess fari í 11 prósent. Kári leiddi meðal annars stærstu undirskriftasöfnun Íslandssögunnar þar sem 86.500 manns skrifuðu undir þá kröfu. Þá hefur Kári verið ötull við greinarskrif undanfarið tæpt ár þar sem hann hefur gagnrýnt nafngreinda ráðamenn harkalega fyrir aðgerðir sínar og aðgerðarleysi. Kjarninn fjallaði ítarlega um þau skrif nýverið.
Í greininni segist Kára hafa fundist lítið sem ekkert bera á milli skoðanna sinna og Bjarna Benediktssonar í sumar þegar þeir sátu og ræddu heilbrigðiskerfið frá ýmsum hliðum Það hafi hins vegar reynst erfitt að fá Bjarna til þess að tjá þig um það hvernig og hvenær hann ætlaði að ná þeim markmiðum. Eitt þeirra væri gjaldfrjáls heilbrigðisþjónusta, en greiðsluþátttaka Íslendinga er í dag 18 prósent, sem að sögn Kára þýðir að sumir veigri sér við að ná sér í nauðsynleg lyf eða að fara í nauðsynlegar aðgerðir. Kári segir að fimm ára áætlun ríkisstjórnarinnar, sem lögð var fram í sumar, hafi ekki borið þess nein merki að Bjarni ætlaði sér að endurreisa heilbrigðiskerfið. Kári segir að í henni hafi verið„lítil merki að þú hafir meint það sem þú sagðir. Þetta er kannski svipað því og þegar þú sagðir margsinnis á sínum tíma að þú ætlaðir ekki að greiða atkvæði með seinna IceSave frumvarpinu, en gerðir það samt að endingu. Þessi tvö, ásamt mýmörgum öðrum dæmum, gera það að verkum að fólk í kringum þig er farið að gefa í skyn að þér sé skringilega tamt að tjá skynsamlegar skoðanir sem þú farir ekki eftir; það sé gjarnan lítið að marka það sem þú segir.“
Hér má lesa greinina í heild: