Donald Trump, frambjóðandi Repúblikana til forseta Bandaríkjanna, vill að hann og Hillary Clinton, andstæðingur hans og frambjóðandi Demókrata, fari í lyfjapróf fyrir síðustu sjónvarpskappræðurnar í kosningabaráttunni. Þær kappræður fara fram á miðvikudag.
Trump var á kosningafundi í New Hampshire þar sem hann sagði að Clinton hefði virst mjög „víruð“ og í miklu stuði þegar síðustu kappræðurnar hófust, en að þeim loknum hafi hún samt varla getað komist í bíl sinn. „Við ættum að fara í lyfjapróf,“ sagði hann svo án þess að útskýra nokkuð frekar.
Trump er líka farinn að tala mikið um það á ný að verið sé að svindla í kosningunum.
Líkt og greint var frá í hafa hafa tvær konur til viðbótar við þær fjórar sem áður höfðu gefið sig fram, stigið fram og sakað Trump um kynferðislega áreitni og ósæmilega hegðun í garð þeirra. Trump hefur sjálfur svarað því til að þetta séu „lygarar" og að þær séu „óaðlaðandi", að því er fram kemur í umfjöllun New York Times.
Önnur þeirra sem nú hefur stigið fram, Summer Zervos, var á meðal keppenda í fimmtu sjónvarpsþáttaröðinni af Lærlingnum (Apprentice), þar sem þátttakendur reyndu að fá vinnu í einu af fyrirtækjum Trumps. Washington Post greindi fyrst frá málinu, og veittu konurnar báðar viðtal vegna þessara áskana. Hin konan heitir Kristin Anderson og segir að Donald Trump hafi káfað á afturenda hennar þar sem hún þjónaði til borðs á veitingahúsi.