Framtakssjóðirnir Akur fjárfestingar og Horn III hafa ásamt hópi einkafjárfesta keypt 69% hlut í Ölgerð Egils Skallagrímssonar. Um þetta var tilkynnt í dag.
Seljendurnir eru eignarhaldsfélagið Þorgerður, F-13 og Lind ehf. Auður I, fagfjárfestasjóður í rekstri Virðingar, hefur farið fyrir stærsta hlutanum frá árinu 2010, þegar Eignarhaldsfélagið Þorgerður keypti hlut í félaginu. Haft er eftir Margit Robertet, framkvæmdastjóra framtakssjóðasviðs Virðingar, að yfirlýst markmið hafi verið frá upphafi að selja þennan hlut á þessum tíma.
Áfram munu stjórnarformaður og forstjóri félagsins, Októ Einarsson og Andri Þór Guðmundsson, eiga stærsta einstaka hlutinn í félaginu í gegnum félag sitt, OA Eignarhaldsfélag, þar sem þeir tóku ekki þátt í sölunni.
Akur fjárfestingar er í rekstri Íslandssjóða, sem eru í eigu Íslandsbanka, og Horn III er í rekstri Landsbréfa, sem er dótturfélag Landsbankans. Haft er eftir stjórnarformanninum, Októ Einarssyni, að hann fagni nýjum aðilum í eigendahóp Ölgerðarinnar. Í kjölfar sölunnar er stefnt að því að auka hlutafé Ölgerðarinnar, „til að styðja við innri vaxtaráform félagsins.“
Salan er gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.