Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi, ætlar ekki að mæta í sérstakan kjördæmaþátt RÚV í kjördæminu. Allir aðrir oddvitar flokka sem eru í framboði í kjördæminu munu mæta í þáttinn, sem verður sendur úr beint frá Háskólanum á Akureyri og er á dagskrá Rásar 2 í kvöld.
Á Facebook-síðu viðburðarins segir að í hans stað muni Líneik Anna Sævarsdóttir, sem situr í þriðja sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í kjördæminu, mæta. Því er ljóst að Þórunn Egilsdóttir, sem situr í öðru sæti á lista flokksins, mun heldur ekki mæta í þáttinn.
Frambjóðendur Framsóknarflokksins eru með fund á Dalvík á sama tíma og kjördæmaþáttur RÚV fer fram.
Sigmundi Davíð hefur gangrýnt RÚV ítrekað á þessu kjörtímabili. Hann gagnrýndi ríkisfjölmiðill í grein sem hann skrifaði skömmu eftir að hann tók við starfi forsætisráðherra og taldi að RÚV hafi tekið þátt í að leiða sig í gildru í Wintris-málinu. Hann gagnrýndi RÚV einnig harkalega fyrir fréttaflutning af aðdraganda flokksþings Framsóknarflokksins, þar sem hann tapaði í formannskjöri. Á föstudag gagnrýndi Sigmundur Davíð svo fréttaflutning RÚV af meintu tölvuinnbroti í tölvu hans á meðan hann var forsætisráðherra. Hann segist hafa hlegið upphátt þegar hann sá fyrirsögn RÚV um málið.
Snorri Eldjárn Hauksson, kosningastjóri Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, staðfestir að Sigmundur Davíð myndi ekki mæta í kjördæmaþáttinn. Ekki náðist í Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmann Sigmundar Davíðs, til að fá skýringar á því hvað valdi.