Félög í eigu bræðranna Ágústar og Lýðs Guðmundssona, sem oftast eru kenndir við Bakkavör, reyna nú að eignast stóran hlut í eignaumsýslufélaginu Klakka, sem áður hét Exista. Bræðurnir voru stærstu eigendur Exista, eins stærsta fjárfestingafélags landsins á góðærisárunum, áður en félagið fór í nauðasamningaferli eftir bankahrunið og var í kjölfarið yfirtekið af kröfuhöfum þess. Langstærsta eign Klakka í dag er 100 prósent hlutur í fjármögnungarfyrirtækinu Lýsingu. Á meðal þeirra sem eiga stóran hlut í Klakka sem er til sölu er íslenska ríkið, en Lindarhvol, félag sem heldur utan um stöðugleikaframlagseignir ríkisins, á um 18 prósent hlut. Bræðurnir hafa þegar gert tilboð í hlut ríkisins. Frá þessu er greint í DV í dag.
Þar segir að einnig að vogunarsjóðurinn Burlington Loan Management, sem var einn umsvifamesti kröfuhafi föllnu íslensku bankanna, sé að bítast við bræðurna um hlutabréf í Klakka. Burlington er þegar stærsti eigandi Klakka með um 57 prósent hlut eftir að hafa keypt mikið af kröfum á Exista á sínum tíma og eftir að hafa keypt hlut eignarhaldsfélags utan um eftirstandandi eignir slitabús Glitnis nýverið. Sjóðurinn hefur nú gert hluthöfum sem eiga 43 prósent í félaginu yfirtökutilboð sem rennur út á fimmtudag, 20. október. Í DV segir að Burlington muni greina á bilinu 3-3,5 milljarða króna fyrir þann hlut verði tilboðið samþykkt. Sá sem stýrir Burlington er Jeremy Lowe, oft kallaður „herra Ísland“ vegna umsvifa hans hérlendis eftir hrun, en Burlington hefur verið fyrirferðamestur allra sjóða í viðskiptum með kröfum á fallna íslenska banka og önnur íslensk fyrirtæki.
Félögin BBR ehf. og Rask ehf., sem eru í eigu Bakkavarabræðra, áttu samtals tæplega þrjú prósent hlut í Klakka í árslok 2015 samkvæmt hluthafalista í ársreikningi.
Bræður ná vopnum sínum að nýju
Bræðurnir Ágúst og Lýður voru á meðal fyrirferðamestu manna í íslensku viðskiptalífi fyrir bankahrun. Fjárfestingafélag þeirra Exista var stærsti einstaki eigandi stærsta banka landsins, Kaupþings, átti ráðandi hlut í alþjóðlega fyrirtækinu Bakkavör Group, átti VÍS og Lýsingu, svo fátt eitt sé nefnt. Exista hélt einnig á umtalsverðum erlendum eignum.
Eftir bankahrunið riðaði veldi þeirra til falls og kröfuhafar þeirra töpuðu gríðarlegum fjármunum. Þeirra á meðal var fjöldi íslenskra lífeyrissjóða.
Bræðurnir hafa hins vegar hægt og rólega verið að ná vopnum sínum að nýjum. Í byrjun þessa árs greindi Kjarninn frá því að þeir væru aftur orðnir eigendur að nánast öllu hlutafé í Bakkavör Group að nýju. Þá höfðu þeir, ásamt meðfjárfestum sínum, keypt hlut íslenskra lífeyrissjóða og Arion banka í félaginu.
Með kaupunum lauk áralangri baráttu um yfirráð yfir Bakkavör Group, fyrirtæki sem Ágúst og Lýður stofnuðu upphaflega á Suðurnesjunum á níunda áratug síðustu aldar, og er nú risavaxið alþjóðlegt matvælafyrirtæki. Og það má vel færa rök fyrir því að bræðurnir hafi staðið uppi sem algjörir sigurvegarar í þeirri baráttu.
Fyrirferðamiklir í Panamaskjölunum
Bræðurnir komu líka fyrir í hinum frægu Panamaskjölum. Þar kom fram að þeir áttu að minnsta kosti sex félög sem skráð eru til heimilis á Bresku Jómfrúareyjunum. Eitt þeirra félaga var á meðal kröfuhafa í bú Kaupþings. Félagið, New Ortland II Equities Ltd., gerði samtals kröfu upp á 2,9 milljarða króna í búið. Um var að ræða skaðabótakröfu. Samkvæmt upplýsingum frá Kaupþingi ehf., sem stofnað er á grunni slitabús Kaupþings, var skaðabótakröfunni hafnað með endanlegum hætti við slitameðferð Kaupþings. Talsmaður félagsins vildi að öðru leyti ekki tjá sig um innihald eða uppruna kröfunnar þegar Kjarninn leitaði upplýsinga um það og bræðurnir svöruðu ekki fyrirspurn Kjarnans um málið.
Bræðurnir voru, líkt og áður sagði, stærstu einstöku eigendur Kaupþings fyrir fall bankans í gegnum fjárfestingarfélagið Exista. Bjarnfreður Ólafsson, lögmaður þeirra, sat í stjórn bankans fyrir þeirra hönd og félög bræðranna voru á meðal stærstu skuldara Kaupþings. Samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis skuldaði Exista og tengd félög Kaupþingi, sem breyttist í Arion banka við kennitöluflakk í hruninu, 239 milljarða króna. Eitthvað hefur fengist upp í þær kröfur vegna nauðasamninga Existu og Bakkavarar, og sölu á hlut í Bakkavör, en ljóst er að sú upphæð er fjarri þeirri fjárhæð sem Kaupþing lánaði samstæðunni.