Stjórnvöld og leiðtogar innan bæði Demókrataflokksins og Repúblikanaflokksins hafa áhyggjur af því að óeirðir og jafnvel ofbeldi brjótist út á kjördag í Bandaríkjunum, vegna ummæla Donalds Trump, forsetaframbjóðanda Repúblikana, um að svindlað verði í kosningunum. Einnig er óttast að ummælin hafi áhrif til lengri tíma á trú fólks á kosningunum.
Þetta kemur fram í frétt Washington Post. Donald Trump hefur í síauknum mæli fullyrt að einhvers konar kosningasvindl sé eða verði stundað í kosningunum í byrjun nóvember, og hefur hvatt stuðningsmenn sína til þess að fylgjast vel með kjörstöðum í borgum eins of Fíladelfíu. Þetta gerði hann síðast í gær. Þetta óttast ráðgjafar Hillary Clinton að muni þýða að kjósendum verði ógnað og það gæti haft áhrif sérstaklega á kjósendur hennar sem tilheyra minnihlutahópum. Því hafa herbúðir Clinton brugðið á það ráð að fá til liðs við sig hundruð lögfræðinga til þess að fylgjast með kjörstöðum og vernda rétt fólks til að kjósa.
„Ég hef miklar áhyggjur af þessari orðræðu,“ segir fyrrum borgarstjóri Fíladelfíu og stuðningsmaður Clinton, Michael Nutter, við Washington Post. Það sem Trump sé að reyna að gera með ótrúlegum og röngum staðhæfingum um kosningasvindl sé að minnka áhuga fólks á kosningunum og draga úr þátttöku. „Hann var ekki að kvarta yfir þessu öllu saman í forkosningum Repúblikana, þegar hann var að vinna. Þá fannst honum kerfið virka fullkomlega.“
Háttsettir Repúblikanar hafa einnig tjáð sig um það að fullyrðingar Trump um kosningasvindl séu ekki byggðar á neinum rökum. Framkoma hans getur enda haft áhrif á afdrif Repúblikana í þinginu, þar sem þeir eru með meirihluta í báðum deildum. Repúblikanar hafa áhyggjur af því að árásir hans geti líka valdið efasemdum um sigra sem Repúblikanar muni vinna í kosningunum.
Árásir hans á kosningakerfið í Bandaríkjunum eru af mörgum talin viðbrögð hans við því að fylgi hans hefur minnkað og hann hefur átt erfitt uppdráttar undanfarnar vikur. Hann neitar hins vegar öllum ásökunum um kynferðislega áreitni og kynferðisbrot, sem að minnsta kosti níu konur hafa sakað hann um, og segir ásakanirnar hluta af samsærinu gegn sér.
„Auðvitað er kosningasvindl á stórum skala í gangi á og fyrir kjördag. Af hverju neita leiðtogar Repúblikana því sem er að eiga sér stað? Svo barnalegt!“ skrifaði Trump á Twitter-síðu sína í gær, en þar hefur hann látið fjöldann allan af ummælum falla undanfarið.