Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri markaðsviðskipta og fjárstýringar hjá Seðlabanka Íslands, viðurkenndi að hafa brotið trúnað þegar hann upplýsti eiginkonu sína, sem þá var lögmaður samtaka fjármálafyrirtækja, um aðgerðir bankans í aðdraganda setningu neyðarlaganna. Þetta kemur fram í vitnaskýrslu sem tekin var af Sturlu af sérstökum saksóknara árið 2012 og fjallað verður um í Kastljósi í kvöld.
Við skýrslutökuna varaði Sturla sjálfur við því að innherjar gætu nýtt sér það hversu seint neyðarlögin voru sett. Sturla, sem starfar enn í Seðlabankanum, upplýsti bankann ekki um framburð sinn hjá sérstökum saksóknara fyrr en eftir að Kastljós spurðist fyrir um málið hjá honum. Frá þessu er greint á vef RÚV.
Þar segir að Í vitnaskýrslunni yfir sé meðal annars fjallað meðal um aðkomu hans að símtali þeirra Geirs H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, og Davíðs Oddssonar, þáverandi formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands, þar sem ákveðið var að veita Kaupingi 500 miljón evra lán sama dag og neyðarlögin voru sett.
Í vitnaskýrslunni segir:„Sturla kvað að Geir H. Haarde hefði átt að stöðva einum sólarhring fyrr (Guð blessi Ísland ávarpið). Hann kvaðst hafa verið áhyggjufullur yfir því að bankarnir skyldu opnaðir á mánudeginum. Neyðarlögin hefðu átt að koma sólarhring fyrr. Reiknar með að í bönkunum sé að finna hreyfingar sem áttu uppruna sinn í því að menn töldu góðar líkur á því að þeir færu á hausinn. Það hefði átt að samþykkja neyðarlögin og „Blessa Ísland" á sunnudagskvöldið."
Sagði að einn bankinn væri búinn að kasta inn handklæðinu
Neyðarlögin voru sett 6. október, eftir lokun markaða. Í kjölfar setningar þeirra féllu alllir þrír stóru íslensku viðskiptabankarnir einn af öðrum. Helgina á undan hafði verið mikill atgangur í íslenska stjórnkerfinu vegna stöðu bankanna og miklar umræður áttu sér stað milli stjórnmálamanna, starfsmanna Seðlabanka Íslands, sérfræðinga og þeirra sem stýrðu fjármálakerfinu. Ströng þagnarskylda hvíldi á þeim sem að málum komu hjá hinu opinbera, þar á meðal Sturlu.
Í vitnaskýrslunni er efni símtals sem Sturla átti við eiginkonu sína tveimur dögum fyrir setningu neyðarlaga rakið. Samkvæmt frásögn RÚV er efni símtalsins svona: „Á bls 1 kemur fram að hugsanlegt sé að einum banka verði bjargað. Á bls 3 kemur að SÞÁ (Sigurjón Þ. Árnason bankastjóri Landsbankans) sé hættur að hringja og hann sé búinn að kasta inn handklæðinu, hann sé búinn að gefast upp. Einnig kemur fram að það séu bara Kaupþingsmenn núna Landsbankinn sé farinn og ECB (Evrópski Seðlabankinn) muni triggera það."
Ekki kannað sérstaklega af hálfu Seðlabankans
Eiginkona Sturlu var á þessum tíma lögfræðingur Samtaka fjármálafyrirtækja, hagsmunasamtaka allra banka og sparisjóða á Íslandi, sem hvort tveggja Landsbankinn og Kaupþing áttu aðild að.
Sturlu var kynnt efni símtalsins við skýrslutökuna hjá sérstökum saksóknara. Í vitnaskýrslunni segir: „Sturla kvaðst náttúrulega vera að brjóta trúnað með því að ræða þetta við konuna sína.“
Í svari Seðlabanka Íslands við fyrirspurn Kastljóss vegna málsins segir að Sturla hafi grein Má Guðmundssyni seðlabankastjóra frá umræddu símtali í lok síðustu viku. „Það hefur ekki verið kannað sérstaklega af hálfu Seðlabankans.“