Breytingar á lögum um gjaldeyrismál, sem leiða að sér losun á fjármagnshöftum sem hafa verið við lýði á Íslandi frá því í nóvember 2008, taka gildi í dag, 21. október, að hluta til. Fleiri breytingar, sem losa enn frekar um fjármagnshöftin, munu síðan taka gildi 1. janúar næstkomandi. Fjármagnshöft hafa verið við lýði á Íslandi frá því í nóvember 2008. Um er að ræða langstærsta skref Íslands út úr því haftaumhverfi sem slegið var utan um efnahag landsins sem stigið hefur verið frá hruni. Ríkisstjórnin hafði lagt mikla áherslu á að málið yrði samþykkt fyrir kosningar. Íslendingar hafa búið við þær takmarkanir á fjármagnshreyfingum sem fylgja höftum í tæp átta ár.
Á meðal þeirra breytinga sem taka gildi strax eru að bein erlend fjárfesting verður ótakmörkuð en háð staðfestingu Seðlabanka Íslands, fjárfesta má í erlendum fjármálagerningum upp að 30 milljónum króna að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, einstaklingar mega kaupa eina fasteign erlendis á ári, heimild til kaupa á erlendum gjaldeyri vegna ferðalaga verður hækkuð úr 350 þúsund í 700 þúsund, skilaskylda erlends gjaldeyris vegna lántöku einstaklinga hjá erlendum aðilum til kaupa á fasteign, farartæki eða vegna fjárfestinga erlendis er afnumin og ýmsar sértækar takmarkanir eru afnumdar eða rýmkaðar.
Þá eru heimildir Seðlabanka Íslands til upplýsingaöflunar á grundvelli hlutverka hans sem seðlabanka eru rýmkaðar í „því skyni hann geti aflað upplýsinga sem auðvelda bankanum að stuðla að verðlags- og fjármálastöðugleika eftir að fjármagnshöft hafa verið losuð.“
Í byrjun næsta árs verður fjárhæðarmörk til fjárfestinga í erlendum fjármálagerningum hækkuð og innstæðuflutningur heimilaður. Það þýðir að hægt verður að leggja inn á bankareikninga á milli landa að nýju án þess flækjustigs sem nú er á slíkri aðgerð. Auk þess stendur til að rýmka heimildir einstaklinga til að kaupa gjaldeyri verulega.