Stjórn Lindarhvols, eignarhaldsfélags í eigu íslenska ríkisins, hefur samþykkt að selja 17,7 prósent hlut ríkisins í Klakka, sem hét áður Exista, til vogunarsjóðsins Burlington Loan Management. Eftir viðskiptin á Burlington um 75 prósent hlut í Klakka, en helsta eign félagsins í dag er fjármögnunarfyrirtækið Lýsing. Burlington, sem var einn umsvifamesti kröfuhafi föllnu bankanna og keypti gríðarlegt magn af kröfum á þá á eftirmarkaði fyrir lágar fjárhæðir, mun greiða 505 milljónir króna fyrir hlut ríkisins í Klakka. Alls bárust þrjú tilboð í hlutinn. Bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundssynir, oftast kenndir við Bakkavör, buðu næsthæst, 501 milljón króna, í hann. Þeir voru aðaleigendur Existu fyrir hrun. Frá þessu er greint í DV í dag.
Lindarhvoll, sem tók við stöðugleikaframlagseignum ríkisins, auglýsti til sölu eignir í umsýslu félagsins í lok september. Það vakti athygli, enda mánuður í kosningar þegar eignirnar voru auglýstar til sölu.
Burlington hefur gert öðrum hluthöfum Klakka yfirtökutilboð sem átti að renna út síðastliðinn fimmtudag. Það hefur verið framlengt um eina viku samkvæmt því sem fram kemur í DV.
Kröfuhafi Íslands
Vogunarsjóðurinn Burlington Loan Management, sem er fjármagnaður og stýrt af bandaríska sjóðsstýringarfyrirtækinu Davidson Kempner, hóf uppkaup á bréfum í Klakka í janúar þegar hann keypti 31,8 prósent hlut Arion banka í félaginu. Fyrir átti Burlington 13,2 prósent hlut í félaginu. Kaupin voru gerð í nafni BLM Fjárfestinga ehf., íslensks dótturfélags Burlington. Sjóðurinn hefur verið stærsti erlendi kröfuhafi íslensks atvinnulífs á eftirhrunsárunum.
Klakki er móðurfélag fjármögnunarfyrirtækisins Lýsingar, sem sérhæfir sig í að fjármagna atvinnutæki, atvinnuhúsnæði og bifreiðar fyrir fyrirtæki og einstaklinga.
Burlington eignaðist gríðarlega mikið af eignum á Íslandi á undanförnum árum. Á árinu 2013 jók sjóðurinn til að mynda eignir sínar á Íslandi um 70 prósent og í lok þess árs voru 18 prósent af fjárfestingaeignum hans á Íslandi. Í lok árs 2014 voru íslensku eignirnar tíu prósent af fjárfesingaeignum hans, en sjóðurinn jók mjög umsvif sín á því ári.
Stærsta einstaka eign hans lengi vel voru kröfur í þrotabú Glitnis, en Burlington var einn stærsti kröfuhafi búsins. Nafnvirði krafna Burlington í bú bankans var að minnsta kosti vel á þriðja hundrað milljarð króna. Burlington fékk rúmlega 30 prósent af nafnvirði þeirra krafna í kjölfar þess nauðasamningur Glitnis var staðfestur af dómstólum í desember 2015.
Sjóðurinn var einnig einn stærsti kröfuhafi slitabús Kaupþings. Í nóvember 2012 átti hann kröfur í búið að nafnvirði 109 milljarðar króna. Til viðbótar hefur Burlington átt fullt af öðrum eignum hérlendis. Sjóðurinn átti umtalsverðar kröfu í bú Landsbankans og er á meðal eiganda ALMC (áður Straumur fjárfestingabanki). Þá hefur sjóðurinn, líkt og áður sagði, átt hlut í Klakka um nokkurt skeið. Mikla athygli vakti þegar hann keypti 26 milljarða króna skuldir Lýsingar skömmu fyrir áramót 2013.