Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, segir að veislu hafi verið slegið upp á nokkrum stöðum í Reykjavík þegar hann steig til hliðar í apríl og að hann hafi fengið fréttir af því að „hópur manna í New York hefði opnað kampavínsflösku af tiltekinni tegund (sem ég man ekki hver var), en flaskan, sem geymd hafði verið uppi á hillu, var kölluð Íslandsflaskan.“ Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu sem hann birti á Facebook-síðu sinni í dag.
Þeir erlendu aðilar sem Sigmundur Davíð skrifar um eru vogunarsjóðir sem voru á meðal stærstu kröfuhafa í bú föllnu bankanna. Í stöðuuppfærslunni segir hann að þótt “Íslandsflaskan“ hafi verið opnuð sé afskiptum þessara aðila að málum hérlendis ekki lokið. Nú séu vogunarsjóðirnir og talsmenn þeirra „farnir að láta aftur á sér kræla meðal annars með auglýsingum í blöðum hér á landi og erlendis. Erlendir fjölmiðlar virðast auk þess sýna kosningum á Íslandi talsverðan áhuga.
Á sama tíma veldur þróunin í stjórnmálum hér á landi og víðar mér talsverðum áhyggjum.“
Birtir grein á ensku
Þess vegna hafi hann ákveðið að birta grein á ensku sem hann hafi skrifað á sínum tíma og hann hafi ætlað að birta „þegar ég væri kominn aftur á fullt í stjórnmálabaráttunni og óvissuástandi í Framsóknarflokknum væri lokið. Þau mál þróuðust eins og þau gerðu og standa eins og þau standa.“
Sigmundur Davíð sagði af sér sem forsætisráðherra í apríl eftir að Wintris-málið kom upp. Í kjölfar þess áttu sér stað fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar þar sem á þriðja tug þúsund Íslendinga mótmæltu honum og öðrum stjórnmálamönnum sem var að finna í Panamaskjölunum svokölluðu. Sigmundur Davíð snéri síðan aftur úr leyfi í lok júlí og ætlaði sér að hefja fulla þátttöku í stjórnmálum að nýju. Hann vildi að það yrði dregið til baka að kosningar yrðu haldnar fyrr og koma í veg fyrir að flokksþing Framsóknarflokksins yrði haldið nú í haust. Hvorugt gekk eftir, Sigmundur Davíð átti ekki endurkvæmt í ríkisstjórn og í byrjun október tapaði hann í formannskosningum fyrir Sigurði Inga Jóhannssyni.
Segir staðfest að allar ásakanir á hendur honum séu ósannar
Í greininni sem Sigmundur Davíð birtir á ensku á heimasíðu sinni fer hann meðal annars yfir það sem hann telur vera gríðarlegan árangur Íslands undir sinni stjórn. Þar rekur Sigmundur Davíð Wintris-málið á þann hátt sem hann hefur nokkrum sinnum gert á undanförnum mánuðum. Þ.e. að nú sé staðfest að allar ásakanir á hendur honum vegna Wintris-málsins hafi verið ósannar en að fjölmiðlar og aðrir óvilhallir aðilar hafi notað þær til að framkvæma pólitískar árásir á sig sem hefðu verið vandlega undirbúnar í sjö mánuði. Þar hafi tilgangurinn helgað meðalið og staðreyndir verið látnar vera.
Kjarninn skoðaði fullyrðingar Sigmundar Davíðs um Wintris-málið, kosningar og hvort Tortóla væri skattaskjól í Staðreyndavakt sem birt var í lok september. Niðurstaða hennar var sú að ástæða þess að verið sé að kjósa snemma séu Panamaskjölin, og stærsta málið þar er Wintris-mál Sigmundar Davíðs. Skjöl sýna einnig fram á að Sigmundur Davíð átti Wintris og seldi sinn hlut í lok árs 2009, og Tortóla er skilgreint sem skattaskjól, hvað sem líður skattgreiðslum. Það var því niðurstaða Staðreyndavaktarinnar að samandregið séu þessar þrjár fullyrðingar haugalygi.
Sigmundur Davíð endurtekur síðan gagnrýni sína á fjölmiðla sem hann segir enn spila stóra rullu í hinu lýðræðislega ferli. Til þess að standa undir þessu hlutverki vill Sigmundur Davíð hins vegar að fjölmiðlar sýni aðhald og skuldbindingu gagnvart staðreyndum. Það séu rætur rökstuddrar rökræðu. Þegar rökræða hjálpi róttækum lausnum að sigrast á kreddum þurfi að vera vilji til að innleiða þær lausnir. „Það sem við þurfum er róttæk skynsemishyggja.“