Hugsanlega mun þurfa að fresta talningu á einhverjum hluta atkvæða úr Norðausturkjördæmi sem greidd verða í kosningunum á laugardag, fram á sunnudag. Veðurspá fyrir norðanvert landið er þannig að spáð er snjókomu og slyddu. Því gæti farið svo að ekki verði hægt að fljúga með kjörkassa frá Egilsstöðum til Akureyrar, sem vanalega er gert um miðnætti á kjördag, heldur þurfi að fara með atkvæðin landleiðina. Ef færð er léleg þá gæti hún tafið þá för og atkvæðin gætu því mögulega ekki verið komin til Akureyrar fyrr en undir morgun á sunnudag. Þá ætti eftir að telja og afstemma atkvæðin. Þetta gæti gert það að verkum að niðurstaða úr talningu í Norðausturkjördæmi muni ekki liggja fyrir fyrr en á sunnudag. Alls eru kjósendur i kjördæminu, sem er mjög víðfermt, eru 29.569 talsins. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Gestur Jónsson, formaður yfirkjörstjórnar, segir í samtali við blaðið að kjörstjórnin sé við öllu búin vegna veðurs. Hún muni funda í dag til að teikna upp áætlun um vinnubrögð komi til þess að fresta þurfi talningu atkvæða fram á sunnudag. „Við leggjum mikið upp úr því að blanda atkvæðum víða að úr kjördæminu vel saman við talningu. Við hrærum vel í og viljum að með því sjáist í stórum dráttum þegar tölur koma hvernig landið liggur.“