Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, segir að hann útiloki ekki samstarf með þeim fjórum flokkum sem sátu í stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili, þótt hann hafi bent á að slíkt samstarf gæti orðið erfitt og flókið. Þetta kom fram í kosningaþætti á RÚV í kvöld. Benedikt hefur áður margsinnis útilokað að Viðreisn myndi ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki saman.
Að mati Benedikts kemur líka alveg til greina að mynda minnihlutastjórn en líka að mynda breiða stjórn yfir miðjuna með aðkomu flokka á hægri og vinstri væng stjórnmálanna. Þeir flokkar sem eru á sitt hvorum vængnum á þeim skala eru Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hefur tekið afar dræmt í það að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og gerði það aftur í þættinum í kvöld. Hún endurtók að lengst væri á milli þeirra flokka í málefnum.
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, sagði niðurstöðu kosninganna vera ákall um breytt vinnubrögð og að ólíkt fólk með mismunandi skoðanir gæti unnið áfram. Hann segist sammála Benedikt Jóhannessyni um að hann vilji ríkisstjórn með meiri breidd. Í kosningabaráttunni hafi legið talsvert langt á milli Bjartrar framtíðar og núverandi stjórnarflokka. Það þyrfti því talsvert að breytast til að þar væru samstarfsfletir.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, endurtók þá skoðun sína að hann ætti að fá stjórnarmyndunarumboð í ljósi þess að flokkur hans væri stærstur í öllum kjördæmum. Hann sagði nauðsynlegt að mynda sterka stjórn en sagðist þreyttur á því að svara spurningum um hvaða möguleikar væru í stöðunni. Það myndi einfaldlega að koma í ljós á næstu dögum.
Birgitta Jónsdóttir, þingkona Pírata, sagði að flokkur hennar útilokaði enn samstarf með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Eitt meginmarkmið Pírata væri að takast á við spillingu og það væri alveg skýrt að flokkurinn gæti ekki unnið í ríkisstjórn með flokkum þar sem fimm ráðherrar tókust á við spillingarmál á síðasta kjörtímabili. Þar vísaði hún nær örugglega í lekamál Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, Orku Energy-mál Illuga Gunnarssonar, Wintris-mál Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og veru Bjarna Benediktssonar og Ólafar Nordal í Panamaskjölunum.
Sigurður Ingi Jóhannsson, starfandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, var spurður af því hvort flokkur hans myndi taka sæti í ríkisstjórn stæði það til boða, í ljósi þess að ekki hafi verið yfir lýst yfir miklum áhuga hjá hinum stjórnmálaflokkunum að vinna með flokknum. Hann sagðist til reiðu búinn og benti á að samstarf við aðra flokka hefði gengið vel á síðustu sex mánuðum, eftir að hann tók við sem forsætisráðherra.
Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að hún myndi aldrei standa í vegi fyrir því að umbótastjórn yrði mynduð. Ef Samfylkingin gæti lagt henni lið þá myndi hún gera það.