Þeir þingmenn og ráðherrar sem hætta á þingi í kjölfar kosninganna sem fram fóru á laugardag munu fá biðlaun sem samtals nema um 150 milljónum króna. Um er að ræða 32 þingmenn, en á meðal þeirra eru þrír ráðherrar og forseti Alþingis sem eru með hærri biðlaunarétt en almennir þingmenn. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Við þessa heildartölu munu svo bætast biðlaun aðstoðarmanna ráðherra, sem munu hverfa frá störfum þegar ný ríkisstjórn hefur verið mynduð. Þeir eru með sömu laun og skrifstofustjórar í ráðuneytum. Kjararáð hækkaði laun skrifstofustjóra innan stjórnarráðsins í 957 þúsund krónur í apríl síðastliðnum. Alls eru aðstoðarmennirnir 14 talsins sem stendur en tveir þeirra voru í framboði og náðu kjöri á þing. Þeir þurfa því ekki biðlaunagreiðslur. Aðstoðarmenn fá biðlaun í þrjá mánuði og því má áætla að kostnaður við biðlaunagreiðslur þeirra nemi tæplega 35 milljónum króna, ef allir tólf aðstoðarmennirnir sem ekki eru á leið á þing nýta hann að fullu. Talan gæti einnig hækkað ef einhver formanna flokka sem eiga sæti á Alþingi ákveður að skipta um aðstoðarmann, en þeir hafa allir rétt á einum slíkum.
Ákvörðun Kjararáðs hækkaði biðlaunin umtalsvert
Kostnaður ríkissjóðs vegna biðlauna þingmanna hækkaði umtalsvert með ákvörðun Kjararáðs á laugardag, en það ákvað þá að hækka laun þnigmanna um 44 prósent upp í um 1,1 milljón króna. Samtímis voru laun ráðherra hækkuð upp í 1,8 milljónir króna og forsætisráðherra í rúmar tvær milljónir króna. Biðlaun þeirra þingmanna sem eru að hætta taka öll mið af þessum hækkunum. Þeir þingmenn sem sátu lengur en eitt kjörtímabil fá biðlaun í sex mánuði en þeir sem sátu eitt í þrjá mánuði. Ráðherrar sem láta af embætti eiga rétt á þriggja mánaða biðlaunum en hafi þeir setið í ráðherrastól í samfellt eitt ár eða lengur eiga þeir rétt á biðlaunum í sex mánuði.
Biðlunin falla niður ef þingmennirnir taka við starfi þar sem þeir fá jafnhá eða hærri laun. Ef launin í nýja starfinu eru lægri en biðlaunarétturinn þá greiðir ríkissjóður mismuninn.