Heildarlaun þeirra sem starfa við barnagæslu, þar með talin störf ófaglærðra við uppeldi og menntun barna í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum, voru lægstu meðaltalslaun einstakra hópa á mánuði í fyrra. Þeir sem störfuðu við barnagæslu fengu 318 þúsund krónur á mánuði. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands sem birtir nú í fyrsta sinn upplýsingar um laun í einstökum störfum fyrir launamenn á almennum vinnumarkaði og opinbera geiranum.
Afgreiðslufólk í dagvöruverslunum var heldur ekki mjög launahátt, og fékk 333 þúsund krónur á mánuði. Í hinum endanum voru aðalframkvæmdastjórar fyrirtækja og stofnana með hæstu launin, eða rúmlega 1,5 milljónir króna að meðaltali á mánuði. Þar á eftir komu þeir sem unnu sérfræðistörf við lækningar, með rúmlega 1,3 milljónir króna að meðaltali.
Líkt og Kjarninn greindi frá í gær hafa laun þingmanna, ráðherra og forseta Íslands hækkað mjög frá deginum í dag. Forsetinn er nú með 2,9 milljónir króna á mánuði, forsætisráðherra rúmar tvær milljónir króna á mánuði, ráðherra um 1,8 milljón króna á mánuði og þingmenn með rúmlega 1,1 milljón króna á mánuði. Laun þingmanna hækkuðu hlutfallslega mest við ákvörðun Kjararáðs, eða um 44,3 prósent. Krónutöluhækkun launa þeirra var 338.254 krónur. Laun þingmanna hækkuðu því um 20 þúsund krónum meira en heildarlaun þeirra sem starfa við barnagæslu voru á síðasta ári og um átta þúsund krónum meira en laun afgreiðslufólks í dagvöruverslunum.