Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, segir að honum sárni hversu hart hafi verið gengið fram við að koma honum frá. Hópur fólks innan flokksins hafi ákveðið að verja kosningabaráttunni til að hvetja til útstrikana á honum fremur en að afla flokknum fylgis. „Sérstaklega þótti mér miður að fólk úr öðrum kjördæmum skyldi blanda sér í kosningabaráttu okkar í Norðausturkjördæmi. Það hlýtur að vera einsdæmi. Sú tilraun til að fella mig úr fyrsta sæti tókst þó ekki og raunar má segja að hvað þetta varðar hafi kosningarnar komið enn betur út en kjördæmisþingið.“ Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem hann sendi flokksfélögum sínum í Norðausturkjördæmi og greint er frá á Vísi.
Þar segir Sigmundur Davíð einnig að hann ætli að bíða með að svara ýmsum spurningum um „gang mála að undanförnu og stöðuna nú“ á meðan að enn sé óvissa um stjórn landsins. Þegar þau mál hafi verið til lykta leitt gefist tækifæri til að ræða og leysa önnur mál.
18 prósent strikuðu Sigmund Davíð út
Framsóknarflokkurinn fékk verstu útkomu í 100 ára sögu sinni í kosningunum um síðustu helgi þegar hann fékk 11,5 prósent fylgi. Í kosningunum 2013 hafði hann fengið 24,4 prósent. Sigmundur Davíð brást við með því að segja við Fréttablaðið að átökin á flokksþingi, þar sem hann var felldur sem formaður, hafi verið helsta ástæða þess að flokkurinn tapaði svona miklu fylgi. „Ég var búinn að leggja drög að því hvernig með öflugri kosningabaráttu hefðum við getað hækkað fylgið um kannski fjögur prósentustig og svo kannski tvö í viðbót í kosningunum sjálfum. Við hefðum þá getað gert ráð fyrir 18 til 19 prósenta fylgi,“ sagði Sigmundur Davíð við Fréttablaðið á mánudag. Í sama blaði í gær er því haldið fram að hann sé að einangra sig frá öðrum þingmönnum flokksins og að honum hugnist ekki að vinna með Sigurði Inga og þingflokknum í sátt.
Niðurstöður kosninganna voru reyndar ekkert sérstaklega góðar fyrir Sigmund Davíð, og virðast ekki styðja þessa kenningu hans. Flokkurinn fékk 20 prósent atkvæða í Norðausturkjördæmi, sem er minnsta fylgi sem hann hefur nokkru sinni fengið í kjördæminu frá því að hann hóf að bjóða fram. Þess utan var Sigmundur Davíð sá frambjóðandi kjördæmisins sem var oftast strikaður út af kjósendum, en alls strikuðu 18 prósent kjósenda Framsóknarflokksins yfir nafn hans.