Sú upphæð sem Samfylkingin getur átt von á að fá úr ríkissjóði vegna starfsemi sinnar á næsta ári er áætluð um 19 milljónir króna. Flokkurinn fékk 102 milljónir króna árið 2010 eftir mikinn kosningasigur árið á undan og hefur þegið 35-38 milljónir króna á ári á þessu kjörtímabili. Eftir afhroð í kosningunum um síðustu helgi, þegar flokkurinn fékk einungis 5,7 prósent atkvæða, mun sú upphæð helmingast, samkvæmt útreikningum sem Viðskiptablaðið birtir í dag. Samfylkingin hefur þegar sagt upp öllu starfsfólki sínu til að bregðast við hinum nýja efnahagslega veruleika.
Niðurstöður kosningar hafa mikil áhrif á fjármál stjórnmálaflokka. Þeir fá úthlutað fé úr ríkissjóði í samræmi við atkvæðavægi og því getur góður eða afar slakur árangur skipt miklu máli í rekstri flokka. Samkvæmt lögum er fé úthlutað árlega til starfsemi stjórnmálasamtaka sem annað hvort fengið að minnsta kosti einn mann kjörinn á þing eða fengið 2,5 prósent atkvæða í síðustu kosningum.
Annar flokkur sem tapaði miklu í kosningunum 29. október er Framsóknarflokkur. Árið 2013 fékk hann 24,4 prósent atkvæða sem gerði það að verkum að greiðslur til hans í ár voru 72,1 milljón króna. Samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins verða þær tæpar 34 milljónir króna, eða 47 prósent af því sem flokkurinn þáði í ár.
Sjálfstæðisflokkurinn fær flokka mest úr ríkissjóði, enda stærsti flokkur landsins að loknum kosningunum þar sem hann fékk 29 prósent atkvæða. Flokkurinn bætti lítillega við sig á milli kosninga og framlög til hans munu hækka úr 78,9 í 84,9 milljónir króna. Vinstri græn bættu einnig vel við sig – fékk 15,9 prósent atkvæða – og framlög til flokksins munu hækka um tæpar 15 milljónir og verða þá 46,6 milljónir króna.
Píratar, sem bættu mest allra þegar sitjandi flokka við sig í nýliðnum kosningum þegar þeir fengu 14,5 prósent atkvæða, hækka framlög sín gríðarlega milli ára. Í ár fær flokkurinn 15,2 milljónir króna en Viðskiptablaðið áætlar að hann fái 42,3 milljónir króna árið 2017. Viðreisn fékk 10,5 prósent atkvæða sem tryggir flokknum 30,6 milljónir króna úr ríkissjóði á næsta ári. Björt framtíð verður á svipuðu róli, fékk 24,3 milljónir króna í ár en fær 20,9 milljónir króna á því næsta, en flokkurinn fékk 7,2 prósent atkvæða og tapaði einu prósentustigi.
Sigurvegari smáframboðanna um síðustu helgi var óumdeilanlega Flokkur fólksins. Ingu Sæland og félögum tókst að tryggja sér 3,5 prósent atkvæða sem þýðir að flokkurinn mun fá 10,3 milljónir króna úr ríkissjóði á næsta ári og getur átt von á rúmlega 40 milljónum krónum alls á kjörtímabilinu, þrátt fyrir að hafa ekki náð í neitt þingsæti.