Formenn hins nýlega myndaða miðjubandalags frjáslyndu flokkanna Viðreisnar og Bjartrar framtíðar funduðu með Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, á miðvikudag og þá var viðruð sú hugmynd að allir flokkarnir þrír myndu mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki. Forsætisráðherra í þeirri ríkisstjórn yrði Benedikt Jóhannesson. Þessi fundur fór fram sama dag og Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, var afhent stjórnarmyndunarumboð af forseta Íslands. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Þar segir einnig að Benedikt hafi falast eftir stuðningi Pírata til að fá stjórnarmyndunarumboð áður en það var afhent Bjarna. Þeir urðu ekki við þeirri beiðni. Einungis tveir formenn töldu að Benedikt ætti að fá það, Viðreisn og Björt framtíð. Ákvörðun Óttarrs Proppé að mæla með Benedikt, og ganga síðar í samstarf við Viðreisn við myndun ríkisstjórnar, hefur ekki mælst vel fyrir hjá hinum stjórnarandstöðuflokkunum. Björt framtíð hafði myndað óformlegt bandalag með þeim fyrir kosningar og búist hafði verið við að það myndi halda og að reynt yrði að mynda stjórn frá miðju til vinstri. Svo er ekki og nú standa yfir viðræður milli Sjálfstæðisflokks annars vegar og Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hins vegar um að mynda nýja stjórn. Helst er vilji til þess að slík stjórn verði styrkt með einum flokki til viðbótar og hafa Sjálfstæðismenn þrýst á að Framsókn verði hleypt að. Það hafa viðsemjendur flokksins útilokað. Báðir aðilar gætu sætt sig við Vinstri græna ef saman næðist um málefni en ljóst er að innan herbúða þess flokks er lítill sem enginn vilji til að vinna með Sjálfstæðisflokknum í ríkisstjórn, að minnsta kosti ekki fyrr en reynt hefur verið á myndun annars konar ríkisstjórnar.
DV greinir frá því í dag að í könnun sem Gallup gerði rétt fyrir kosningar hafi komið í ljós að tæp 40 prósent stuðningsmanna Bjartrar framtíðar hafi viljað að Katrín Jakobsdóttir yrði næsti forsætisráðherra. Það er nánast sama hlutfall þeirra og vildi að formaður flokksins, Óttarr Proppé, sæti á þeim stóli. Stuðningsmenn Bjartrar framtíðar höfðu lítinn sem engan áhuga á að Benedikt Jóhannesson yrði forsætisráðherra og enn minni á því að Bjarni Benediktsson tæki við embættinu. Í umræddri könnun kom fram að 40 prósent allra aðspurðra, sama hvaða flokk þeir studdu, vildu að Katrín yrði næsti forsætisráðherra. Bjarni Benediktsson var með 26 prósent stuðning í embættið en Benedikt með einungis fjögur prósent.