Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl., sem setið hefur í stjórn Kaupþings og sat áður í skilanefnd og slitastjórn Kaupþings, hefur ákveðið að segja sig úr stjórn félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu Kaupþingi.
Jóhannes Rúnar var skipaður í skilanefnd í október 2008 í kjölfar þess að Kaupþing (þá Kaupþing banki hf.) féll eins og spilaborg, ásamt Glitni og Landsbankanum.
Jóhannes var skipaður í slitastjórn Kaupþings í janúar 2012 í kjölfar þess að skilanefnd var lögð niður. Jóhannes gegndi lykilhlutverki í endurskipulagningu Kaupþings sem lauk í desember 2015 þegar nauðasamningur félagsins við kröfuhafa var endanlega staðfestur. Jóhannes sat í bráðabirgðastjórn Kaupþings fram til mars 2016 og frá þeim tíma í stjórn félagsins.
Haft er eftir Jóhannesi Rúnari í tilkynningu, að eftir átta áhugaverð og krefjandi ár í vinnu fyrir Kaupþing þá ætli hann að leita á önnur mið. „Mikill árangur hefur náðst á þeim tíma sem liðið hefur frá nauðasamningi Kaupþings og er félagið byrjað að greiða út til hagsmunaaðila þess og áætlanir liggja fyrir um hvernig undið verður ofan af starfsemi félagsins. Ég tel því að nú sé réttur tími fyrir mig að segja mig úr stjórn félagsins og leita á önnur mið. Ég er mjög stoltur af því sem við höfum áorkað hjá Kaupþingi og vil nota tækifærið til að þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg við að ná þeim árangri, ekki síst starfsmönnum Kaupþings.“
Alan J. Carr, stjórnarformaður Kaupþings, þakkar Jóhannesi vel unnin störf. „Stjórn Kaupþings þakkar Jóhannesi fyrir vel unnin störf í þágu félagins og fyrir framlag hans á þeim umbreytingartímum sem fylgdu í kjölfar nauðasamnings þess. Við óskum honum velfarnaðar í framtíðarverkefnum hans.“
Stærsta einstaka innlenda eign Kaupþings er 87 prósent eignarhlutur í Arion banka, en hluturinn er í söluferli.