Frambjóðandi Demókrata, Hillary Clinton, og frambjóðandi Repúblikana, Donald J. Trump, eyða lokasprettinum í kosningabaráttunni í að fá fólk til þess að mæta á kjörstað. Búist er að við því að kosningaþátttaka geti ráðið úrslitum um það hvor muni sigra í kosningunum, en Trump hefur sótt verulega í sig veðrið að undanförnu, í könnunum, eftir að hafa verið töluvert á eftir Hillary.
Hillary hefur komið fram á fjölda útifunda þar sem tónlistarfólk hefur stutt hana, meðal annars söngkonan Beyoncé og maður hennar, rapparinn Jay Z.
Trump var í New Hampshire í gær, þar sem hann ræddi meðal annars um innflytjendamál. Hann sagði Hillary vera með „vonlausa áætlun“ og að hún myndi búa til margar kynslóðir af hryðjuverkamönnum. „Hún vill fjölga flóttamönnum frá Sýrlandi um 550 prósent,“ sagði Trump og ítrekaði að þetta myndi „smita“ samfélögin með hryðjuverkaógn.
Hillary hefur fyrst og síðast talað fyrir því, að fólki mæti á kjörstað og kjósi. Hún sagðist í fundi í Ohio, ekki geta hugsað til þess hvernig fólkið muni taka því að vera með forseta eins og Trump. „Við getum ekki látið það gerast og ég óska eftir stuðningi ykkar,“ sagði Hillary.
Vefurinn FiveThirtyEight, sem reiknar út stöðuna í Bandaríkjunum með því að taka saman gögn úr könnunum víða að, segir Hillary nú vera með 48,5 prósent fylgi en Trump 45,7. Sigurlíkurnar eru þó meiri hjá Hillary, eða 64,3 prósent eins og mál standa nú, þegar þrír dagar eru til kosninga.