Taconic Capital, vogunarsjóður sem er langstærsti eigandi eignarhaldsfélagsins Kaupþings, hefur keypt rúmlega sex prósenta hlut Eignasafns Seðlabanka Íslands (ESÍ) í Kaupþingi á verði sem áætlað er um 15 milljarðar króna. Um er að ræða kaup á bæði eignarhlutum og kröfum sem ESÍ átti í Kaupþingi. ESÍ hafði framselt bréf sín til Seðlabankans í síðasta mánuði og það var Seðlabankinn sem lét erlendan fjárfestingarbanka koma bréfunum í söluferli.
Heildareignir Kaupþings um mitt þetta ár voru metnar á 475 milljarða króna. Langstærsta óselda eign Kaupþings er 87 prósent hlutur í Arion banka, viðskiptabanka sem starfar að mestu á íslenskum markaði og var endurreistur af íslenska ríkinu með íslenskum innstæðum. Frá þessu er greint í DV í dag.
Þar segir að Taconic Capital hafi á undanförnum mánuðum reglulega komið á framfæri áhuga sínum um að kaupa hlut Seðlabankans í Kaupþingi. Samhliða hefur sjóðurinn verið að auka hlut sinn verulega með uppkaupum á hlutum annarra. Þann 1. nóvember síðastliðinn áttu þrír sjóðir Taconic Capital um 33 prósent hlut í Kaupþingi og því er hlutur vogunarsjóðsins að minnsta kosti orðinn 39 prósent eftir kaupin.
Með sölunni er Seðlabanki Íslands að selja óbeinan eignarhlut sinn í íslenskum banka.