Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra segir ótímabært að álykta nokkuð um framtíð NATO og áhrif boðaðra stefnubreytinga Donalds Trump, nýkjörins forseta Bandaríkjanna, á veru Íslands í hernaðarbandalaginu.
Trump lagði mikla áherslu á í kosningabaráttu sinni að aðildarríki NATO myndu, í hans valdatíð, leggja til þær fjárhæðir sem þær hafa skuldbundið sig til að greiða til NATO. Ísland er meðal aðildarríkja NATO og er þar minnsta aðildarríkið og eina ríkið sem hefur ekki her. Ísland er meðal þeirra landa sem hefur ekki greitt að fullu þær fjárhæðir sem samningurinn utan um Atlantshafsbandalagið gerir kröfu um.
Í utanríkisráðuneytinu er fylgst náið með stöðunni. Ekki sé hægt að leggja mat á áhrif þess að Donald Trump hafi verið kjörinn forseti Bandaríkjanna fyrr en að stefna hans í utanríkismálum skýrist betur. Trump lét hafa eftir sér ótal ummæli sem myndu hafa bein og óbein áhrif á Ísland ef það gengi eftir. Nýkjörinn forseti talaði hins vegar á allt öðrum nótum í nótt eftir að ljóst var að hann hefði náð kjöri. Ómögulegt sé þess vegna að ráða í framhaldið vegna þessarar óvissu.
„Fyrst er það að nefna að við höfum farið yfir það sem hann hefur að sagt,“ segir Lilja í samtali við Kjarnann. „Það er nokkuð erfitt að ráða í hans stefnu; hann hefur ekki lagt til lista um hvað hann hyggist gera. Það verður farið betur yfir það og þess vegna er ótímabært að álykta neitt um þetta, fyrr en við sjáum hver verði þeirra utanríkisráðherra og hver verði þeirra varnarmálaráðherra.“
Lilja bendir á að Trump hafi haft orð um Atlantshafsbandalagið og að hann hafi viljað skoða hvaða framlög aðildarríkin hafa lagt til NATO. „Vera okkar í NATO skiptir okkur miklu máli. Ég geri ekki ráð fyrir stefnubreytingu hvað okkur varðar,“ segir hún og bendir á að þó Ísland hafi ekki þurft að standa við fjárhagslegar skuldbindingar hafi Ísland lagt til aðra þætti eins og til dæmis landsvæði undir herstöð. Í takt við þjóðaröryggisstefnu Íslands þá er þátttaka í NATO mikilvæg.