Svo getur farið að Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins skili inn stjórnarmyndunarumboðinu, ef samtöl hans við formenn annarra flokka skila ekki árangri fyrir helgi. Þetta sagði Bjarni í samtali við RÚV í dag.
„Það er töluvert mikil gjá víða á milli manna en nú ætla ég að halda þessum samtölum áfram og sjá hvort það er grundvöllur til þess að hefja eiginlegar stjórnarmyndunarviðræður við aðra flokka. Og ég ætla bara að halda því til haga að ég er ekkert að hugsa ákveðið eitt umfram annað í því, en ella verð ég að segja þetta gott í bili og skila umboðinu, það getur verið veruleiki sem við bara horfumst í augu við,“ sagði Bjarni eftir fund með þingflokki sínum í Valhöll í dag.
Hann sagði einnig að kosningaúrslitin hafi boðið upp á frekar þrönga stöðu. Ekki sé ljóst hvaða flokkum hann muni bjóða til formlegra viðræðna. Ekki hafi verið andstaða í flokknum við samstarf við Bjarta framtíð og Viðreisn. „En við vissulega ræddum áskoranir sem gætu verið í því að við gerðum það.“ Hann sagðist hafa átt gott samstarf við Framsóknarflokkinn og vilji halda því áfram, þegar hann var spurður að því hvort hann vildi taka Framsókn að borðinu.
Hann sagðist hafa rætt við Vinstri græn nokkrum sinnum, „og ég tel að það sé orðið útséð með að hefja einhverjar viðræður á milli flokkanna.“