Samfylkingin hefur skipt um skoðun varðandi aðkomu að ríkisstjórn. Logi Einarsson, nýr formaður flokksins, segir í stöðuuppfærslu á Facebook í gær að Samfylkingin geti auðveldlega orðið sá bútur sem þurfi til að mynda ríkisstjórn. „Við munum nálgast þá stöðu af fullri ábyrgð og skoða aðkomu okkar að ríkisstjórn, verði áherslur okkar stór hluti af málefnasamningi. Það þarf að ráðast í kerfisbreytingar sem skila þjóðinni meiri arði af auðlindunum, skapa frið á vinnumarkaði og jafna lífskjör í landinum. Loks verður byggja upp innviði og almannaþjónustu fyrir alla.“
Oddný Harðardóttir tilkynnti að hún væri hætt sem formaður Samfylkingarinnar þann 31. október síðastliðinn. Logi tók við embættinu tímabundið. Oddný sagði einnig í yfirlýsingu að það væri ljóst í ljósi stöðu Samfylkingarinnar að flokkurinn færi ekki í ríkisstjórn. Hann myndi hins vegar styðja öll góð mál og gæti hugsað sér að verja umbótastjórn falli.
Allar líkur eru taldar á því að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, skili stjórnarmyndunarumboði sínu í dag eða um helgina. Til þess að svo fari ekki þarf flokkurinn að ná saman við Viðreisn og Bjarta framtíð um ásættanlegar lausnir í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum og Evrópumálum, en þar ber mikið á milli. Skili Bjarni umboðinu mun það væntanlega fara til Katrínar Jaokbsdóttur, formanns Vinstri grænna, sem mun reyna að mynda margra flokka stjórn frá miðju til vinstri. Þar gæti Samfylkingin komið að, annað hvort sem hluti stjórnar eða sem stuðningsaðili hennar.