Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, skrifar á Facebook-síðu sína í kvöld að í stjórnarmyndunarviðræðum Viðreisnar, Bjartar framtíðar og Sjálfstæðisflokksins hafi mönnum orðið ásátt um að breytt vinnubrögð verði á Alþingi með nýrri ríkisstjórn, „þannig að breiðari aðkoma yrði að stórum málum, þannig að ólík sjónarmið sem til heilla horfðu fyrir þjóðina heyrðust snemma í ferlinu“. Hann segist ekki vita hvernig viðræðunum muni ljúka. Þetta er í fyrsta sinn sem formaður flokkanna þriggja sem nú reyna að mynda ríkisstjórn tjáir sig eftir að formlegar viðræður hófust á föstudag.
Benedikt nefnir að vel fari á með þeim Óttarri Proppé, formanni Bjartar framtíðar, en flokkarnir þeirra ákváðu að vera í eins konar bandalagi þegar kæmi að stjórnarmyndunarviðræðum eftir kosningarnar 29. október. „[…] ekki þekki ég marga vænni og skynsamari menn,“ skrifar Benedikt. Það hafi ollið honum vonbrigðum að lesa um svikabrigsl Óttarrs og hans sjálfs vegna þess að flokkar þeirra væru að „sinna þeirri lýðræðislegu skyldu sinni að reyna að mynda starfhæfan meirihluta“.
Á samningsfundunum með Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, hafi þeir verið samstíga um að leggja til breytt vinnubrögð. „Ég heyri ekki annað en að Bjarni sé heill í því að vilja hugsa verklag uppá nýtt, þannig að virðing Alþingis aukist,“ skrifar Benedikt.
Benedikt beinir því svo til annarra stjórnmálamanna að þeir skuli bera virðingu fyrir sjálfum sér og pólitískum andstæðingum „með því að nota ekki tortryggni, hatur og ofbeldi, allra síst þegar stjórnmál eru í eðlilegum farvegi.“
Enn fremur skrifar hann að hann hafi ekki hugmynd um hvernig viðræðunum muni ljúka en vonar að „þegar upp verður staðið hafi allir hlutaðeigandi verið sínum málstað trúir og reynt að finna góðar lausnir á ágreiningsmálum. Þá geta allir verið sáttir við sjálfan sig og aðra, hverjar sem niðurstöður verða,“ skrifar Benedikt. Færsluna má sjá hér.