Páll Valur Björnsson, fyrrverandi þingmaður Bjartrar framtíðar og stjórnarmaður í flokknum, segist telja að Björt framtíð eigi enga samleið með Sjálfstæðisflokknum. Hann hefði átt að vera síðasti kostur í stjórnarmyndunarviðræðum þar sem formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, sé á móti kerfisbreytingum. „Það var kosið út af Panamaskjölunum og þar var Bjarni.“ Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
Þar segir Páll að Björt framtíð sé róttækur mannréttinda- og umhverfisflokk sem sé alþjóðlega sinnaður. Margt frábært fólk sé í Sjálfstæðisflokknum en það þurfi meira til. „Þeir sviku Evrópusambandsloforðið og ég er ekkert tilbúinn til þess að fyrirgefa það strax.“ Páll telur að stjórnarmyndunarviðræðurnar muni enda fljótlega þar sem hann trúi ekki öðru en að Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, muni gefa nokkuð eftir í þeim málum sem flokkurinn hefur lagt áherslu á.
Stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar hófust formlega á laugardagsmorgun eftir að ákveðið var að láta á þær reyna á föstudag. Fundað var stíft alla helgina. Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, sagði í gær að hann vissi ekki hvernig viðræðunum myndi ljúka. Hann tjáði sig líka um mikla gagnrýni sem Óttarr hefur fengið á samfélagsmiðlum og í opinberri umræðu fyrir það að taka þátt í yfirstandandi stjórnarmyndunarviðræðum. Fjölmargir þingmenn annarra flokka hafa gagnrýnt það auk fjölda álitsgjafa. Þá gagnrýndi Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, Óttarr í stöðuuppfærslu á Facebook í gær. Þar sagði hún: „Æ, æ, Óttarr Proppé. Ekki láta það gerast að stjórn hægriaflanna í samfélaginu verði í boði Bjartrar framtíðar þegar þið hafið betri kost í augsýn.“