Stýrivextir Seðlabanka Íslands verða óbreyttir áfram í 5,25 prósentum. Þetta kemur fram í tilkynningu peningastefnunefndar bankans frá því í morgun.
Samkvæmt nýrri verðbólguspá bankans er útlit fyrir að verðbólga verði undir markmiði fram á mitt næsta ár, en verði svo 2,5 til 3 prósent eftir það. Verðbólgan mældist 1,8% í október og hefur nú haldist undir markmiði í tæplega þrjú ár, „þrátt fyrir miklar launahækkanir og öran vöxt eftirspurnar. Viðskiptakjarabati, lítil alþjóðleg verðbólga og hækkun gengis krónunnar hafa vegið á móti áhrifum launahækkana á verðbólgu.“
Verðbólguspáin er töluvert breytt frá fyrri spá, en það skýrist að miklu leyti af því að gengi krónunnar er spáð en ekki gert ráð fyrir að það haldist óbreytt allt tímabilið sem skoðað er. Verðbólguhorfur hafa batnað, einkum til skemmri tíma. Engu að síður er ekki eins mikið tilefni til að bregðast við að mati peningastefnunefndar eins og ætla mætti, „vegna þess að peningastefnunefnd hefur byggt ákvarðanir sínar að undanförnu á mati sem tók tillit til þess að töluverðar líkur voru á hækkun gengis krónunnar.“
Ákvörðunin er byggð á verðbólguspánni og áhættumati. Peningastefnunefnd nefnir sérstaklega óvissu um stefnu í ríkisfjármálum, þar sem aðhald hennar hafi slaknað nokkuð undanfarin tvö ár og óljóst sé hver efnahagsstefna næstu ríkisstjórnar verði. „ Þá gætir óróa á vinnumarkaði, ekki síst í kjölfar nýlegs úrskurðar um hækkun launa þjóðkjörinna fulltrúa. Að auki gætir áfram óvissu um áhrif losunar fjármagnshafta, en vel hefur gengið fram til þessa. Við bætist óvissa um alþjóðlegar efnahagshorfur.“
Kröftugur vöxtur eftirspurnar og ofangreindir óvissuþættir á varkárni við ákvörðun vaxta, þótt kjölfesta verðbólguvæntinga við markmiðið virðist vera að styrkjast og aðhald peningastefnunnar hafi að hluta aukist í gegnum hærra gengi krónunnar, segir nefndin.
Þá kemur einnig fram í yfirlýsingu peningastefnunefndar að Seðlabankinn hafi undanfarna mánuði keypt hlutfallslega minna af gjaldeyrisinnstreyminu en hann gerði fyrr á þessu ári. Nefndin telur rétt að halda áfram á þeirri braut að óbreyttu.