Katrín Júlíusdóttir, fyrrverandi varaformaður Samfylkingarinnar, hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja (SFF). Katrín sat á þingi í 13 ár, frá 2003 til 2016, fyrir flokk sinn en gaf ekki kost á sér til áframhaldandi þingsetu fyrir nýliðnar kosningar. Hún gengdi embætti iðnaðarráðherra og síðar fjármála-og efnahagsráðherra í ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna á árunum 2009 til 2013.
Samtök fjármálafyrirtækja eru heildarsamtök fjármálafyrirtækja á Íslandi. Stjórnarformaður þeirra er Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka. Aðrir stjórnarmenn eru Hannes Frímann Hrólfsson, forstjóri Virðingar, Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka, Jakob Sigurðsson, forstjóri VÍS, Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku, Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans og Vilhjálmur G. Pálsson, frá Sparisjóði Austurlands.
Í tilkynningum frá SFF segir Katrín að hún sé spennt fyrir því að taka á við nýja starfið. „Í störfum mínum í stjórnmálum í gegnum tíðina hefur það alltaf verið mér mikið kappsmál að vinna að sameiginlegri sýn og ná árangri í þeim verkefnum sem liggja fyrir. Starfsumhverfi fjármálafyrirtækja er sífellt að breytast og ég hlakka til að fá að taka þátt í því að koma að verkefnum sem tengjast þeirra hagsmunamálum.“
Katrín tekur við starfinu af Guðjóni Rúnarssyni, sem starfaði hafði sem framkvæmdastjóri samtakanna frá stofnun þeirra árið 2006. Tilkynnt var um starfslok Guðjóns í lok september.
Tilgangur og meginverkefni Samtaka fjármálafyrirtækja eru að vera málsvari fjármálafyrirtækja í hagsmunamálum þeirra og stuðla að því að
starfskilyrði þeirra séu samkeppnishæf. SFF gæta hagsmuna aðildarfélaga samtakanna gagnvart
stjórnvöldum, eftirlitsstofnunum, almenningi og atvinnulífi og aðstoða þau við að byggja upp heilbrigt
og traust fjármálakerfi.