Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, vill ekki svara spurningum um hverjar hann telur áætlanir Ólafs Ragnars Grímssonar, þáverandi forseta Íslands, hafa verið þann 5. apríl síðastliðinn þegar Sigmundur Davíð fór skyndilega til fundar við hann. Sigmundur Davíð sagði af sér sem forsætisráðherra síðar þann dag.
Í viðtali á Útvarpi Sögu í gær var hann spurður hvort hann hafi farið til fundar við forsetann vegna þess að fyrir hefði legið að Ólafur Ragnar ætlaði í hádegisfréttir Bylgjunnar þennan dag að tilkynna um að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs væri sprungin. Hann var einnig spurður hvort að Ólafur Ragnar hefði verið tilbúinn með lista yfir utanþingsráðherra sem ættu að sitja í slíkri stjórn undir forsæti Einars K. Guðfinnssonar, fyrrverandi forseta Alþingis. Sigmundur Davíð svaraði að hann ætlaði enn sem komið er að láta vera að svara þessum spurningum en sagði að þessi mál myndu koma í ljós síðar. „Maður fer ekki á Bessastaði að hitta forsetann með skömmum fyrirvara að ástæðulausu. Þetta mun allt koma í ljós síðar. Ég mun þá ekki halda fram neinu sem ég get ekki fært sönnur á. Þannig að þegar ég fer yfir þessi mál þá geta menn treyst því að það verði nákvæm lýsing á atburðum eins og þeir voru.“Sigmundur Davíð sagðist hafa skrifað alla þessa sögu upp og ætti bara eftir að birta hana á heimasíðu sinni. Það myndi koma að því.
Í viðtalinu endurtók hann þá sýn sína að hann væri fórnarlamb samsæris alþjóðafjármálakerfisins og fjölmiðla og að Panamaskjölin hafi fyrst og síðast verið birt til þess að steypa honum af stóli. Sigmundur Davíð hélt því fram að Süddeutsche Zeitung, þýska blaðið sem komst yfir Panamaskjölin og vann úr þeim í samvinnu við fjölmiðla út um allan heim, væri í eigu bandaríska fjárfestingabankans Goldman Sachs. Það er ávirðing sem áður hefur komið fram, en Vladimir Pútin, forseti Rússland, hélt þessu fram í kjölfar opinberana um aflandsfélaganet aðila tengdum honum sem geymdu mikla fjármuni. Süddeutsche Zeitung hefur sagt að ávirðingarnar séu rangar. Blaðið sé í eigu austur-þýsks fjölmiðlafyrirtækis.
Segist ekki hafa óskað eftir þingrofsheimild
Sigmundur Davíð sagði af sér sem forsætisráðherra síðar saman dag, þann. 5. apríl. Í viðtalinu ítrekaði hann það sem hann hefur áður sagt, að þingrofsbeiðni hafi ekki verið lögð fram á Bessastöðum þennan dag, líkt og Ólafur Ragnar hefur haldið fram.
Sigmundur Davíð benti á að þingflokkur Sjálfstæðisflokks hafi átt eftir að funda með Bjarna Benediktssyni, formanni flokksins, þegar Bessastaðarferðin átti sér stað, en hann kom heim úr fríi í Bandaríkjunum að morgni sama dags.
Bjarni hafði þegar fundað með Sigmundi Davíð um morguninn á fundi sem fór ekki vel. Í kjölfarið setti Sigmundur Davíð stöðuuppfærslu á Facebook þar sem hann sagði að ef þingmenn Sjálfstæðisflokksins treysti sér ekki til að styðja ríkisstjórnina við að ljúka sameiginlegum verkefnum hennar myndi hann rjúfa þing og boða til kosninga hið fyrsta. Í viðtalinu við Útvarp Sögu sagði Sigmundur Davíð að hann hafi á þessum tíma enn verið að berjast fyrir því að ríkisstjórn hans myndi halda velli. Það sé þveröfugt við það að rjúfa þing. „En ef að í ljós hefði komið að ríkisstjórnin hefði ekki meirihluta, þá hefði ekki verið nein ástæða til þess að bíða eftir atkvæðagreiðslu í þinginu, ekki frekar en ´74, þá hefði ég viljað vera tilbúinn að leggja fram slíka beiðni.“
Sigurður Ingi Jóhannsson, nú formaður Framsóknarflokksins, sagði frá því í útvarpsviðtali 25. september síðastliðinn að þingflokkur flokksins hafi verið búinn að taka ákvörðun um að setja Sigmund Davíð af sem forsætisráðherra á þingflokksfundi 5. apríl, sem hófst skömmu eftir Bessastaðaför Sigmundar Davíð. Ástæðan var trúnaðarbrestur milli þingflokksins og Sigmundar Davíðs vegna Wintris-málsins og eftirmála þess. Sigmundur Davíð kom síðar til fundarins en aðrir þingmenn, meðal annars vegna ferðar hans til Bessastaða, sem var farin án samráðs við þingflokkinn.