Björt framtíð, Píratar, Samfylking, Viðreisn og Vinstrihreyfingin - grænt framboð hafa ákveðið að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður. Málefnahópar flokkanna munu á næstu dögum vinna að því að fara yfir málefnagrundvöll hugsanlegs stjórnarsamstarfs þessara flokka. Mun sú vinna hefjast á morgun, mánudag, og munu hóparnir funda á nefndasviði Alþingis. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá aðstoðarmanni Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna.
Greint var frá því fyrr í dag, eftir fund forystumanna flokkanna fimm, að grundvöllur væri fyrir formlegum viðræðum. Þeir hittu allir þingflokka sína í dag og niðurstaða þeirra funda hefur verið sú að hefja ætti slíkar viðræður.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði við mbl.is fyrr í dag að hún hafi lagt til að farið yrði í formlegar viðræður og að settir yrðu niður málefnahópar „til að setja niður málefnin og kanna hvort það sé sameiginlegur grundvöllur til að byggja á ríkisstjórnarsamstarf fimm ólíkra flokka[...]„Mér finnst allir vera af fullum heilindum í því að láta á þetta reyna. Á sama tíma er fólk raunsætt á að björninn er ekki unninn.“
Fulltrúar flokkanna, alls 15 manns, funduðu í tvo og hálfan tíma í gær þar sem farið var yfir ýmis stórmál. Á fundinum var m.a. fjallað um heilbrigðismál, skattamál, sjávarútvegsmál og stjórnarskrármál.