Stefnt er að því að hefja formlegar viðræður um myndun fimm flokka ríkisstjórnar undir forsæti Vinstri grænna. Aðrir flokkar sem myndu taka þátt í því ríkisstjórnarsamstarfi yrðu Píratar, Viðreisn, Björt framtíð og Samfylking. Flokkarnir fimm ætla að hitta þingflokka sína í dag og bera undir þá tillögu um að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður. Þetta kom fram eftir fund forystumanna flokkanna fimm sem hófst klukkan 13 í dag og stóð í rúmlega einn og hálfan tíma. RÚV greinir frá.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði við mbl.is að hún hafi lagt til að farið yrði í formlegar viðræður og að settir yrðu niður málefnahópar „til að setja niður málefnin og kanna hvort það sé sameiginlegur grundvöllur til að byggja á ríkisstjórnarsamstarf fimm ólíkra flokka[...]„Mér finnst allir vera af fullum heilindum í því að láta á þetta reyna. Á sama tíma er fólk raunsætt á að björninn er ekki unninn.“
Fulltrúar flokkanna, alls 15 manns, funduðu í tvo og hálfan tíma í gæri þar sem farið var yfir ýmis stórmál. Á fundinum var m.a. fjallað um heilbrigðismál, skattamál, sjávarútvegsmál og stjórnarskrármál. Katrín, sem er væntanlegur forsætisráðherra í fimm flokka ríkisstjórninni verði hún að veruleika, sagði eftir fundinn að það myndi skýrast í dag, sunnudag, hvort að af formlegum viðræðum flokkanna fimm verði eða ekki. Sú niðurstaða ætti að liggja fyrir í kvöld, eftir að öllum þingflokksfundum flokkanna fimm verður lokið.