Í viðræðum Vinstri grænna, Pírata, Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Samfylkingarinnar um myndun nýrrar ríkisstjórnar hafa ekki komið upp sýnileg vandamál sem eigi að koma í veg fyrir að flokkarnir fimm nái samstöðu um Evrópu-, sjávarútvegs- og stjórnarskrármál. Þó á eftir að útfæra stefnu í öllum þessum málaflokkum og því gæti sú staða breyst, sérstaklega hvað varðar sjávarútvegsmál. Heimildir Kjarnans herma að erfiðast sé talið að ná saman um ríkisfjármálastefnu, þar á meðal skattamál. Þar sé mesta bilið milli Vinstri grænna annars vegar og Viðreisnar hins vegar. Viðreisn vill einfalda skattkerfið, innleiða reglur um hámarksaukningu ríkisútgjalda á ári og stunda öguð ríkisfjármál á meðan að Vinstri græn leggja mikla áherslu á að auka félagslegan jöfnuð í gegnum skattkerfið og með auknum útgjöldum til velferðarmála.
Þegar ákveðið var að forsvarsmenn flokkanna fimm myndu hittast um helgina til að kanna grundvöll fyrir stjórnarmyndun láu fyrir augljósir átakapunktar. Þeir helstu voru auðlindamál, skattamál og stjórnarskrármál auk þess sem ekki lá skýrt fyrir hvort sátt væri um að setja spurninguna um áframhaldandi viðræður um aðild að Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Samkvæmt heimildum Kjarnans gekk vel að ræða þessi mál á fundi flokkanna fimm á laugardag, sem alls 15 manns tóku þátt í. Þ.e. þrír frá hverjum flokki.
Í gær fundaði svo Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna og verðandi forsætisráðherra gangi formlegar viðræður eftir, með forsvarsmönnum Pírata, Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Samfylkingar til þar sem farið var yfir mögulegt verklag ef af formlegum viðræðum yrði.
Í kjölfar fundarins fór hver forsvarsmaður til fundar við sinn þingflokk þar sem ákvörðun var tekin um hvort að hefja ætti formlegar viðræður. Klukkan 18 í gær var svo send út tilkynning um að flokkarnir fimm ætluðu að hefja slíkar.
Málefnahópar flokkanna verða nú skipaðir og þeir munu á næstu dögum fara yfir málefnagrundvöll hugsanlegs samstarfs. Sú vinna mun hefjast í dag og hóparnir munu funda á nefndarsviði Alþingis.Katrín greindi frá því í útvarpsþættinum Í Bítinu í morgun að hún hafi upplýst Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, um stöðu mála í gærkvöldi.