Ríkisendurskoðun gerir fjölmargar athugasemdir við það hvernig Landsbankinn hefur staðið að sölu á fjölmörgum eignum sínum árin 2010 til 2016, einna helst Vestia, Icelandic Group, Promens, Framtakssjóði Íslands, IEI, Borgun og Valitor. „Allar þessar sölur fóru fram í lokuðu ferli og í sumum tilvikum fékkst líklega lægra verð fyrir eignarhlutina en vænta mátti miðað við verðmætin sem þeir geymdu,“ segir Ríkisendurskoðun í nýrri skýrslu sinni.
Vinnubrögð bankans við söluna á 31,2% hlut í greiðslukortafyrirtækinu Borgun hafa verið harðlega gagnrýnd, enda var hluturinn seldur í lokuðu ferli árið 2014 og vísbendingar voru strax um að það hefði verið gert á lægra verði en eðlilegt hefði mátt þykja. Ríkisendurskoðun segir að bankinn hafi haft nægan tíma til að kynna sér starfsemi Borgunar auk þess sem tími hefði verið til að hafa söluferlið opið.
Bankinn hafi auk þess ekki gætt að hugsanlegum verðmætum sem fylgdu hlutnum, sem var hlutdeild í fjármunum sem fyrirtækið sékk þegar Visa Inc. tók yfir Visa Europe. Það voru 6,2 milljarðar króna. Starfsmenn Landsbankans sem komu að sölunni á Borgun vissu af þessu, og bankinn vissi frá því í janúar 2013 að það voru veruleg verðmæti fólgin í þessu. Sérfræðingar bankans um greiðslukortaviðskipti upplýstu bankaráðið á fundi í janúar 2013 um mögulegan hagnað Valitors af valréttinum, en fulltrúar bankans segjast ekki hafa vitað að Borgun væri aðili að Visa Europe líka. Þetta gagnrýnir Ríkisendurskoðun og segir að aðild Borgunar að Visa Europe hafi staðið frá árinu 2010 og hafi verið forsenda þess að fyrirtækið var með færsluhirðingu vegna Visakorta.
Ríkisendurskoðun segir að greiðslukortasérfræðingar Landsbankans hafi ekki átt hlut að máli þegar hluturinn í Borgun var seldur, þar sem ekki var leitað til þeirra. Þá hefði bankinn getað fengið vitneskju um þetta ef gerð hefði verið áreiðanleikakönnun upp úr gögnunum sem bankanum stóð til boða í gagnaherbergi. Það hefði að mati Ríkisendurskoðunar verið eðlilegur hluti af söluferlinu.
Ein þeirra ábendinga sem Ríkisendurskoðun beinir til bankans er að hann verði að grípa til ráðstafana til að endurreisa orðspor sitt. Trúverðugleika bankans hafi verið stefnt í hættu með verklagi við sölu á verðmætum eignum.