Raunverð fjölbýlis hefur hækkað um 50 prósent frá upphafi ársins 2011, og raunverð sérbýlis um 30 prósent. Ef aðeins er horft á síðastliðið ár hefur raunverð fjölbýlis hækkað um 14,2 prósent og raunverð sérbýlis um 14,7 prósent. Þetta kemur fram í nýrri hagsjá Landsbankans. Raunverð fasteigna hefur hækkað mun meira en annars hefði orðið vegna þess að verðbólga hefur verið lág og stöðug um langt skeið.
Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um tvö prósent milli mánaða í október síðastliðnum. Verð á fjölbýli hækkaði um 1,8 prósent en á sérbýli um 2,2 prósent. Þegar horft er 12 mánuði aftur í tímann hefur fjölbýlisverð hækkað um 13,6 prósent og sérbýli um 14,2 prósent, en þetta eru mestu árshækkanir sem sést hafa frá árinu 2007.
Annan mánuðinn í röð eru hækkanir á sérbýlum meiri en á fjölbýlum, en því hefur verið öfugt farið undanfarin ár og frá vorinu 2012 hefur hækkun í fjölbýli verið meiri á hverju ári. Undanfarna mánuði hefur hækkun á sérbýlum hins vegar tekið við sér og tekið fram út fjölbýlishækkunum. Breytingar á verði sérbýlis eru iðulega sveiflukenndari en á fjölbýli, en hagfræðideild Landsbankans segir að núverandi ferill á hækkunum á sérbýli hafi bæði verið óvenjulega langur og hækkunin hafi verið óvenjulega mikil. Viðskipti með sérbýli hafa líka verið mun líflegri á þessu ári en í fyrra, á meðan viðskipti með fjölbýli eru svipuð.
Landsbankinn segir að eftir mikla aukningu fasteignaviðskipta í fyrra líti nú út fyrir að markaðurinn sé að falla í svipað horf og á árunum 2011 til 2014, með hóflegri aukningu. Eftirspurninni eftir húsnæði, sérstaklega litlum íbúðum, hefur hins vegar ekki verið mætt og almenn sé skorturinn á framboði ásamt mikilli kaupmáttaraukningu stærsti skýringarþáttur í miklum verðhækkunum.
Þá bendir bankinn á að samkvæmt gögnum um þinglýsta kaupsamninga hafa einungis þúsund íbúðir á höfuðborgarsvæðinu, sem byggðar hafa verið 2012 og síðar, verið seldar. Þetta eru tæplega átta prósent af viðskiptunum á tímabilinu. Því sé varla hægt að halda því fram að dýrari nýbyggingar séu ráðandi í verðþróun síðustu missera. Hlutfall nýrra íbúða er langlægst í Reykjavík, þrjú prósent síðustu fjögur ár og tvö prósent undanfarið ár, en langhæst í Garðabæ, rúmlega 40 prósent í ár og 26% að meðaltali síðustu fjögur ár.