Hugmyndir Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna, um að bæta við hátekjuskattþrepi á laun sem voru yfir einni og hálfri milljón króna á mánuði og að leggja á stóreignaskatt höfðu ekki verið kynntar formönnum þeirra flokka sem hún ræddi við um stjórnarmyndun þegar þær birtust í viðtali við hana í Fréttablaðinu í gærmorgun. Viðtalið kom Viðreisn og fleirum sem tóku þátt í viðræðum um myndun fimm flokka stjórnar mjög á óvart og Viðreisn taldi skattahækkanir upp á tugi milljarða króna ekki vera ábyrgar.
Þetta kemur fram í grein sem Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, hefur birt á vef flokksins þar sem hann fer yfir ástæður þess að það slitnaði upp úr stjórnarmyndunarviðræðum Vinstri grænna, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar, Samfylkingar og Pírata í gær.
Í greininni segir Benedikt að formenn flokkanna fimm hafi fundað Í gærmorgun. Á þeim fundi hafi Katrín sagt að „hún vildi fá skýr svör eftir hádegi um það hvort flokkarnir teldu samkomulagsgrundvöll. Þá tæki við ferli, sem eflaust hefði tekið fram í næstu viku, þar sem menn skrifuðu stjórnarsáttmála. Á þessum fundi komu fram þrjár mismunandi tillögur um útfærslu á sjávarútvegsleið þannig að því fór fjarri að samkomulag hefði náðst um málið.“