Pressan ehf., félag sem er í meirihlutaeigu Björns Inga Hrafnssonar og viðskiptafélaga hans, hefur keypt útgáfufélagið Birtíng sem gefur út ýmis tímarit, meðal annars Séð og Heyrt og Nýtt líf. Frá þessu er greint á Stundinni.
Rúmur mánuður er síðan að Pressan tilkynnti fjölmiðlanefnd um yfirtöku sína á sjónvarpsstöðinni ÍNN. Pressan ehf. hefur verið umsvifamikil á fjölmiðlamarkaði á undanförnum árum. Félagið keypti m.a. DV seint á árinu 2014 og rekur auk þess fjölda vefa og vikublaða. Pressan ehf. hefur ekki skilað ársreikningi fyrir árið 2015 en á árinu 2014 skilaði félagið hagnaði upp á 11,5 milljónir króna. Engar upplýsingar voru í ársreikningi félagsins um hverjar rekstrartekjur félagsins voru á árinu 2014. Uppistaðan í auknu veltufé frá rekstri virðist vera tilkomin vegna nýrra lána sem Pressan fékk á árinu 2014 og gerir það að verkum að handbært fé frá rekstri er 184 milljónir króna.
Skuldir félagsins jukust mikið á árinu 2014. Langtímaskuldir sem voru engar í árslok 2013 voru orðnar 148 milljónir króna í lok árs 2014. Auk þess tvöfölduðust skammtímaskuldir Pressunnar og voru orðnar 124 milljónir króna í lok árs. Því skuldaði félagið samtals 272 milljónir króna í lok árs 2014, sem er fjórum sinnum meira en þær 68 milljónir króna sem félagið skuldaði í lok árs árið áður. Ekki kemur fram í ársreikningnum hvenær þessi lán eru á gjalddaga né hverjir lánveitendur Pressunnar eru.
Eignarhald Pressunnar ehf samkvæmt skráningu hjá Fjölmiðlanefnd:
Kringluturninn, 28%, eigendur Björn Ingi Hrafnsson, 50%, og Arnar Ægisson, 50%Kringlueignir ehf., 31,85% eigandi Björn Ingi HrafnssonAB 11 ehf., 11,15%, eigendur Björn Ingi Hrafnsson, 50%, og Arnar Ægisson, 50%Dr. Jón Óttar Ragnarsson, 11%Steinn Kári Ragnarsson framkvæmdastjóri, 10%Jakob Hrafnsson framkvæmdastjóri, 8%