Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, vill ekki útiloka að flokkur hennar myndi ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Hún ræddi við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins í gær, og segir nokkuð ljóst að ekki sé annar valkostur í ríkisstjórnarviðræðum fyrir flokk sinn. Enn hafi þó ekki hefði verið tekið ákvörðun um hvort að við hann yrði reynt. Ákvörðun um það yrði tekin í þingflokki Vinstri grænna og í kjölfarið myndi liggja fyrir hvort Katrín skili stjórnarmyndunarumboðinu sem hún hefur haft í viku. Smári McCarthy, þingmaður Píratar, útilokar hins vegar að Píratar myndi ríkisstjórn með Framsóknarflokknum. Þetta kemur fram í DV í dag.
Því virðist nokkuð ljóst að eina fimm flokka ríkisstjórnarmynstrið sem enn er inni í myndinni er það sem reynt var við fyrr í þessari viku án árangurs. Ekki verður mögulegt að skipta Viðreisn út fyrir Framsóknarflokkinn í þeim viðræðum. Auk þess herma heimildir Kjarnans að ákveðið hafi verið innan Bjartrar framtíðar í gærkvöldi að halda samstarfi sínu við Viðreisn áfram. Þ.e. að fara ekki í ríkisstjórn án þess flokks, en mikið hefur verið þrýst á Óttarr Proppé, formann flokksins, að hætta því til að geta orðið þátttakandi í t.d. þriggja flokka ríkisstjórn Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks.
Í DV er sagt að þingflokkur Vinstri grænna leggist alfarið gegn því að mynda þriggja flokka ríkisstjórn með bæði Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Ákveði Vinstri græn að fara í stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum, og bandalag Bjartrar framtíðar og Viðreisnar heldur áfram, er ljóst að þá standi einungis eftir ríkisstjórn sem innihéldi það bandalag eða ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Samfylkingar.
Innan Sjálfstæðisflokksins er vilji til að taka aftur upp viðræður við frjálslynda miðjubandalag Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, en upp úr viðræðum flokkanna slitnaði fyrr í mánuðinum. Þeim vilja fylgir þó að þingmennirnir vilja fá Framsóknarflokkinn inn í viðræðurnar. Það hefur Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, útilokað aftur og aftur. Það komi ekki til greina að mynda ríkisstjórn með bæði Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki.