Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 3,9% á þremur mánuðum. Þar af hækkaði hún um 1,3 prósent milli september og október. Þetta kemur fram í gögnum Þjóðskrár, sem tekur saman vísitölur leiguverðs og íbúðaverðs í hverjum mánuði út frá þinglýstum samningum.
Þegar litið er til síðastliðinna tólf mánaða hefur vísitala leiguverðs hækkað um 8,5 prósent, en vísitalan sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs og á að varpa ljósi á þróun leiguverðs samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir á hverjum tíma.
Fermetraverð í leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu var hæst í stúdíóíbúðum í Reykjavík, vestan Kringlumýrarbrautar, og Seltjarnarnesi. Þar var meðalleiguverðið á hvern fermetra 3.463 krónur, á meðan það var tæplega 2.700 krónur í tveggja herbergja íbúðum, 2.356 krónur í þriggja herbergja íbðuðum og 1.926 krónur í fjögurra til fimm herbergja íbúðum á sama svæði.
438 leigusamningum var þinglýst á höfuðborgarsvæðinu í október síðastliðnum, sem er 18 prósenta aukning miðað við sama mánuð í fyrra.
Vísitala íbúðaverðs hefur aftur á móti hækkað um 13,6% á höfuðborgarsvæðinu undanfarna 12 mánuði, um 3,2% síðustu þrjá mánuði og tvö prósent milli september og október.