Fréttastofa RÚV krefst þess að Vigdís Hauksdóttir dragi órökstuddar og ósannar ásakanir sínar til baka, en Vigdís sakaði RÚV og Kastljós um að vilja knésetja íslenskan landbúnað og falsa myndir sem birtust í Kastljóssumfjöllun um Brúnegg í gærkvöldi.
„Það er óviðunandi að hafður sé uppi slíkur atvinnurógur í garð fréttamanna sem sinna sínum störfum af heilindum og fagmennsku,“ segir í yfirlýsingu frá Kastljósi, sem Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kastljóss og Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri RÚV, skrifa báðar undir ásamt þeim frétta- og dagskrárgerðarmönnum sem fjölluðu um málefni Brúneggja í gær.
„Vigdís Hauksdóttir, fyrrverandi formaður fjárlaganefndar, heldur því fram á Facebooksíðu sinni að Kastljós sé „þekkt fyrir að falsa myndir með umfjöllun“, án þess að nefna um það dæmi, enda eru þau ekki til,“ segir í yfirlýsingunni. Vigdís sé að gefa í skyn að myndir sem héraðsdýralæknir Vesturlands tók og voru birtar í Kastljósi í gær séu falsaðar.
„Kastljós fékk aðgang að skoðunarskýrslum frá Matvælastofnun í krafti upplýsingalaga og þeim ljósmyndum og myndböndum sem fylgdu skýrslunum. Í þættinum voru þær myndir eingöngu sýndar með frásögn af þeim heimsóknum. Það er óviðunandi að hafður sé uppi slíkur atvinnurógur í garð fréttamanna sem sinna sínum störfum af heilindum og fagmennsku. Ummæli þingmannsins fyrrverandi vega alvarlega að æru og starfsheiðri fréttamanna RÚV og við það verður ekki unað. Fréttastofa RÚV krefst þess að Vigdís Hauksdóttir dragi órökstuddar og ósannar ásakanir sínar til baka.“
Í sömu færslu á Facebook sagðist Vigdís hafa heimildir fyrir því að starfsmenn RÚV séu 700 talsins með verktökum. Þetta leiðréttir RÚV og segir að fjöldi stöðugilda sé 259 auk verktaka í stærri tímabundnum verkefni en hlutfall þeirra framlags fari aldrei yfir 25% vinnu starfsmanna.