Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna hafa tjáð forseta Íslands að samkomulag hafi náðst um að kannaður verði möguleiki á samstarfi þessara flokka í ríkisstjórn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá embætti forseta Íslands. Þar segir: „Fari svo að sátt náist um þá niðurstöðu verður í beinu framhaldi leitað viðræðna við aðra stjórnmálaflokka um aðild að þeirri stjórn. Forseti fylgist náið með þróun þessara viðræðna og væntir þess að komist verði að niðustöðu um myndun nýrrar ríkisstjórnar innan skamms.“
Óformlegar viðræður um stjórnarmyndun hafa átt sér stað frá því á föstudag. Bjarni hefur meðal annars fundað með formönnum Viðreisnar og Bjartrar framtíðar og þeir flokkar virtust nálægt því að ná saman um myndun stjórnar í gær. Heimildir Kjarnans herma að samstaða lægi fyrir í meginatriðum um málefni. Fyrir lá þó vilji um að fleiri kæmu inn í þá stjórnarmyndun og Bjarni ræddi meðal annars við Katrínu Jakobsdóttur um það á sunnudagskvöld. Samkvæmt heimildum Kjarnans var það niðurstaða Vinstri grænna þá að taka ekki þátt í fjögurra flokka ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki, Viðreisn og Bjartri framtíð.
Vinstri græn hafa verið mjög staðföst í þeirri afstöðu sinni að taka einungis þátt í ríkisstjórn sem eykur sjálfbærar tekjur ríkissjóðs verulega til að hægt verði að ráðast stórtæka sókn í heilbrigðis-, velferðar- og menntamálum. Það gerist ekki nema með hærri sköttum. Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Björt framtíð hafa hingað til ekki viljað fallast á slíkar breytingar.