Steinþór Pálsson hefur látið af störfum sem bankastjóri Landsbankans. Bankaráð Landsbankans og Steinþór hafa komist að samkomulagi um að hann láti af störfum hjá bankanum, að því er fram kemur í tilkynningu frá bankanum.
Steinþór hefur verið bankastjóri frá 1. júní 2010. Hreiðar Bjarnason framkvæmdastjóri Fjármála og staðgengill bankastjóra hefur tekið við stjórn bankans. Staða bankastjóra verður auglýst svo fljótt sem verða má.
„Ég hef verið í Landsbankanum í sex og hálft viðburðaríkt ár. Gríðarlega mikið hefur áunnist á þessum árum við að endurreisa fjárhag heimila og fyrirtækja. Landsbankinn hefur tekið stakkaskiptum á þessu tíma og ég skil sáttur við mín störf. Fjárhagsstaða bankans er mjög traust og markaðshlutdeild bankans hefur vaxið. Ég kveð samstarfsfólk mitt með hlýjum hug og baráttukveðjum til framtíðar,“ segir Steinþór Pálsson í tilkynningunni.
Mikill styr hefur staðið um bankann, ekki síst vegna Borgunarmálsins. Fyrir tíu dögum síðan birti Ríkisendurskoðun svo skýrslu um fjölmargar eignasölur bankans á árunum 2010 til 2016 og gagnrýndi þær harðlega. Á meðal þeirra er salan á hlut í Borgun.
Gagnrýnin á bankann og stjórnendur hans náði hámarki í mars 2016, þegar bankaráð Landsbankans greindi frá því að Bankasýsla ríkisins hafi farið fram á það við sig að Steinþóri yrði sagt upp störfum vegna Borgunarmálsins. Enn fremur hafi stofnunin farið fram á að formaður og varaformaður bankaráðsins myndu víkja. Ráðið varð ekki við því að segja upp bankastjóra Landsbankans. Þess í stað tilkynntu fimm af sjö bankaráðsmönnum Landsbankans að þeir myndu ekki gefa kost á sér til endurkjörs. Bankasýslan hafnaði því síðar að uppsögn Steinþórs hafi verið til skoðunar hjá henni.
Í ljósi þeirrar stöðu sem uppi hefur verið, og þeirrar orðsporsáhættu sem Landsbankanum hafði verið skapað vegna Borgunarmálsins, barst Ríkisendurskoðun formlegar og óformlegar beiðnir frá einstaka þingmönnum, Landsbankanum sjálfum og Bankasýslu ríkisins um að taka eignasölur bankans síðustu ár til skoðunar. Ríkisendurskoðun varð við þeirri beiðni og ákvað að skoða alla eignasölu Landsbankans frá árinu 2010 til 2016.
Niðurstaða Ríkisendurskoðunar var kynnt fyrr í mánuðinum. Þar eru gerðar fjölmargar athugasemdir við sölu Landsbankans á mörgum eignum á umræddu tímabili. Einkum er kastljósinu beint að söluferli sex eigna. Sölurnar hafi farið fram í lokuðu ferli og í sumum tilvikum hafi fengist „lægra verð fyrir eignarhlutina en vænta mátti miðað við verðmætin sem þeir geymdu.“