Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, og Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, ræddu við leiðtoga Samfylkingarinnar og Pírata í gær. Þetta sagði Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, í viðtali í Harmageddon á X-inu í morgun. Þessir fjórir flokkar eru að ræða saman og ætla að sjá hvort það kemur eitthvað út úr því, og jafnframt að sjá hvort Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn muni sættast á Framsóknarflokkinn sem þriðja flokkinn í sínum stjórnarmyndunarviðræðum.
Hann segir flokkana fjóra hafa verið að reyna að finna út úr því hvað það var sem viðræður flokkanna og VG strönduðu á. Hugmyndir VG um kvótakerfið séu til að mynda lengst frá hugmyndum Viðreisnar.
Allir þessir fjórir flokkar virðist hins vegar vera á þeirri skoðun að ekki hafi verið fullreynt með samstarf þeirra. Benedikt sagði Viðreisn, Bjarta framtíð, Samfylkinguna og Pírata því hafa verið að fara yfir sínar málefnaáherslur. Þau hafi komist að því að mikill samhljómur sé á milli þeirra fjögurra í mörgum málum.
Því gæti svo farið að Vinstri græn gætu valið á milli þess að reyna fimm flokka stjórn á ný eða stjórn með Sjálfstæðisflokki.
Benedikt sagði líka að hann og Óttarr hafi rætt við Sigurð Inga Jóhannsson, formann Framsóknarflokksins, í gær, en það hafi verið um þingsetningu á Alþingi í næstu viku.
Þá fór hann yfir stjórnarmyndunarviðræður Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokksins og sagði að þar hefði verið búið að ná lendingu með mörg mál, til að mynda breytingar á landbúnaðarkerfinu. Það hafi ekki verið komin lending í Evrópusambandsmálum.
Líkt og fram hefur komið hafa Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn undanfarna daga. Flokkarnir tveir hafa þó ekki meirihluta á þingi og þurfa að minnsta kosti einn flokk til viðbótar til þess að geta myndað meirihlutastjórn. Ýmsar hugmyndir hafa verið uppi um hvaða flokkur það væri, og kemur fram í Fréttablaðinu í dag að reynt hafi verið að slíta samstarfi Viðreisnar og Bjartrar framtíðar til þess að fá þann síðarnefnda með í mögulega ríkisstjórn. Það hafi ekki borið árangur.