Birgitta Jónsdóttir, fulltrúi Pírata á Alþingi, hefur fengið umboð forseta Íslands til þess að mynda ríkisstjórn. Hún mætti ein til fundar við Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, að beiðni forsetans en hingað til hafa þrír fulltrúar Pírata setið fundi fyrir Pírata. Guðni kynnti fjölmiðlum þetta í Bessastaðastofu rétt í þessu.
Tveir stjórnmálaleiðtogar hafa áður fengið þetta umboð eftir kosningarnar 29. október, þau Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Birgitta mætti á fund Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, á Bessastöðum klukkan 16:00. Guðni hefur í dag rætt við alla fulltrúa stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi eftir kosningarnar. Flestir voru sammála um að ekki hefði verið reynt til þrautar að mynda ríkisstjórn, hvort sem er til hægri eða vinstri.
Guðni segist hafa beðið með að veita stjórnarmyndunarumboð á ný eftir að upp úr slitnaði í viðræðum Bjarna og Katrínar. Formönnum flokkanna var þá frjálst að ræða sín á milli. Þá kom í ljós að enn væri vilji til þess að ræða stjórnarmyndun Pírata, Viðreisnar, Bjartar framtíðar, Samfylkingar og Vinstri grænna. Guðni óskaði eftir því að Birgitta myndi upplýsa sig um gang mála strax eftir helgi.
Katrín Jakobsdóttir telur að nú ætti að gera hlé á stjórnarmyndunarviðræðum og Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, tók undir það. Bæði sögðust þau vera orðin þreytt og vildu leyfa „rykinu að setjast“ eins og Benedikt komst að orði. Katrín hefur einnig viðrað hugmyndir um að mynduð verði þjóðstjórn allra flokka og boðað til kosninga á ný.
Birgitta og Píratar hafa átt þátt í stjórnarmyndunarviðræðum Vinstri grænna, Samfylkingar, Viðreisnar og Bjartar framtíðar undir verkstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Upp úr þeim viðræðum slitnaði, jafnvel þó margir hafi verið þeirrar skoðunar að ekki hafi verið fullreynt að sætta ólík sjónarmið innan þessa hóps.
Píratar fengu 14,5 prósent atkvæða á landsvísu í alþingiskosningunum 29. október. Aðeins Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn fengu fleri atkvæði, jafnvel þó fjöldi þingmanna Pírata sé sá sami og Vinstri græn.
Vill ræða saman við hringborð
Birgitta sagði eftir fund sinn með forsetanum að mikilvægt sé að hægt verði að þjóðarsáttartón því framundan séu mjög erfið mál sem muni koma til kasta stjórnmálamanna að leysa. Hún segir að ef hægt verði að ná þessum flokkum sem eru lengst til vinstri og lengst til hægri að þá séum við komin með „litla þjóðstjórn“. Hún segir einnig að Pírtar muni ekki vilja stjórna viðræðum við borðsenda, heldur ræða saman við hringborð. Það sé í anda þeirra stjórnarhátta sem Píratar tileinka sér.
Birgitta ætlar nú að hitta þingflokk Pírata og mun halda áfram samtölum við forystumenn flokka á Alþingi. Hún segir að Píratar geri ekki tilkall til forsætis í ríkisstjórn. Heldur sé mikilvægt að sætta ágreiningsmál áður en rætt sé um stóla.
Fréttin var uppfærð með ummælum Birgittu eftir fundinn með forseta klukkan 16:35.