Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Pírata á Alþingi, segir Pírata ekki gera tilkall til forsætisráðuneytisins jafnvel þó flokkurinn hafi nú formlegt stjórnarmyndunarumboð úr vasa Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands. Birgitta lýsti markmiðum sínum fyrir fjölmiðlum eftir stuttan fund með Guðna á Bessastöðum síðdegis í dag.
Líklegt er að nú hefjist viðræður Pírata, Viðreisnar, Bjartar framtíðar Samfylkingar og Vinstri grænna á ný en upp úr þeim viðræðum slitnaði þegar Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hafði umboð til stjórnarmyndunar. Þá þótti Viðreisn það vera óyfirstíganlegt verkefni að sætta ólík sjónarmið milli þessara fimm flokka.
Birgitta sagði að Katrín og Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, hefðu hist í dag og þess mætti vænta að hægt væri að koma þessum flokkum að samningaborðinu á ný. Katrín hefur áður opinberað efasemdir sínar um að þessir fimm flokkar geti unnið saman, eftir að upp úr viðræðunum undir hennar forystu slitnaði, og spurt hvað hafi breyst í afstöðu Viðreisnar.
Jafnvel þó Birgitta hafi mætt ein til Bessastaða þá segir hún að þrír fulltrúar Pírata hafi stjórnarmyndunarumboðið; það eru hún, Smári McCarty og Einar Aðalsteinn Brynjólfsson. Guðni hafi óskað eftir því að hún kæmi ein til fundar við sig.
Þingflokkur Pírata kemur nú saman og mun halda áfram samtölum við forystumenn flokka á Alþingi. Birgitta segir að Píratar geri ekki tilkall til forsætis í ríkisstjórn. Heldur sé mikilvægt að sætta ágreiningsmál áður en rætt sé um stóla. Það sé skoðun hennar að sá verði forsætisráðherra sem helst sé líklegur til þess að geta sætt ólík sjónarmið.
Birgitta sagði eftir fund sinn með forsetanum að mikilvægt sé að hægt verði að þjóðarsáttartón því fram undan séu mjög erfið mál sem muni koma til kasta stjórnmálamanna að leysa. Hún segir að ef hægt verði að ná þessum flokkum sem eru lengst til vinstri og lengst til hægri að þá séum við komin með „litla þjóðstjórn“. Hún segir einnig að Píratar muni ekki vilja stjórna viðræðum við borðsenda, heldur ræða saman við hringborð. Það sé í anda þeirra stjórnarhátta sem Píratar tileinka sér.